Skála í freyðivíni í endamarkinu

Nágrannakonurnar Birna Jónsdóttir og Rakel Hlynsdóttir fengu hugmyndina að Prosecco-hlaupinu …
Nágrannakonurnar Birna Jónsdóttir og Rakel Hlynsdóttir fengu hugmyndina að Prosecco-hlaupinu yfir rauðvínsglasi í sumar. Í kvöld verður spandex-gallanum skipt út fyrir sumarkjóla og freyðivín þegar skokkaðir verða fimm kílómetrar í Elliðaárdalnum, fyrst og fremst til að hafa gaman (athugið að álteppið á myndinni er fengið að láni). Ljósmynd/Aðsend

Það styttist óðum í að hlaupasumarið nái hámarki með Reykjavíkurmaraþoninu á menningarnótt. Í kvöld fer hins vegar fram heldur óhefðbundið hlaup, svokallað Prosecco-hlaup, þar sem hlaupafatnaður og púlsmælar víkja fyrir sumarkjólum og freyðivíni. 

Tilgangur hlaupsins er að sögn skipuleggjenda, Birnu Jónsdóttur og Rakel Jóhannsdóttur, að bjóða upp á hlaup þar sem aðgangseyrir er svo gott sem enginn og eina markmiðið er að hafa gaman. 

Hlaup sem varð til yfir rauðvínsglasi

„Við fáum okkur stundum rauðvín, við nágrannakonurnar, og fáum allskonar hugmyndir sem við látum aldrei verða af en eitt kvöldið í sumar fengum við hugmynd að halda þetta hlaup,“ segir Birna í samtali við mbl.is.  

Upphaflega hugmyndin var að bjóða einungis vinum og vandamönnum í hlaupið. „Við áttum kannski von á svona 50 manns og ætluðum að bjóða í pottinn í garðinum okkar eftir hlaupið,“ segir Birna. Viðburðurinn á Facebook er hins vegar opinn og brá stöllunum heldur betur í brún þegar um 200 manns voru búnir að haka við „mæta“ daginn eftir að þær buðu í hlaupið. Í dag hafa 474 boðað komu sína í Prosecco-hlaupið og tæplega 3.000 manns sýnt viðburðinum áhuga á Facebook. 

„Þetta hefur undið upp á sig, sem er ótrúlega gaman, en við erum náttúrulega í smá kvíðakasti yfir þessu. Við erum bara tvær úr tungunum og þetta er ekkert skipulagt eða þannig,“ segir Birna. 

Freyðivín, sápukúlur og makkarónur

Hlaupið fer fram í Elliðaárdalnum og er mæting í Indjánagil rétt hjá Rafveituheimilinu klukkan 18. Skokkaðir verða um fimm kílómetrar og eru hlauparar beðnir um að taka með sér freyðivínsflösku og mæta í sumarkjól, sem er þó ekki skilyrði. Drykkjarstöð verður á gatnamótum Glæsibæjar og Þykkvabæjar og þar mun Rentaparty.is sjá um fjörið með tónlist og sápukúluvél. Hlaupið endar svo í Indjánagilinu þar sem boðið verður upp á makkarónur frá Sætum syndum ásamt  kynningu á La Marka prosecco. Að því loknu verður boðið upp á sætaferðir í mathöllina á Höfða. 

Hlaupið í kvöld er ætlað 20 ára og eldri þar sem aðgangseyrinn í hlaupið er eitt stykki freyðivínsflaska. „Við leggjum í púkk og svo skálum við að hlaupi loknu,“ segir Birna.

Síðastar í mark í Powerade-hlaupinu

Birna og Rakel hafa mætt í hin og þessi hlaup í gegnum tíðina, allt frá Colorrun í Reykjavíkurmaraþonið, en fannst vanta hlaup þar sem fólk getur tekið þátt með litlum fyrirvara og án þess að greiða hátt gjald fyrir þátttöku. 

„Við erum afspyrnu lélegir hlauparar, við förum alveg einn og einn stífluhring og melduðum okkur einu sinni í Powerade-hlaupið, en þá urðum við reyndar síðastar mark og ég held að við eigum sögulegan hámarkstíma í mark, 75 mínútur að hlaupa þessa 10 kílómetra,“ segir Birna og hlær. Hún er reyndar ein skráð fyrir þessum sögulega lélega tíma þar sem Rakel skráði sig ekki í hlaupið. 

Prosecco-hlaupið er fyrst og fremst hugsað fyrir hlaupara eins og vinkonurnar. „Þetta er hugsað fyrir þá sem nenna ekki að keppa að einhverju, eins og við. Þetta er bara til að hlæja og hafa gaman,“ segir Birna.  

Vinkonurnar eru vel undirbúnar fyrir kvöldið, að minnsta kosti hvað varðar klæðnað og vín. „Við keyptum okkur sumarlegustu kjólana sem eru eftir á brunaútsölu sumarsins og ætlum að vera í stíl. Veðrið er líka geggjað og við erum ótrúlega peppaðar í þetta,“ segir freyðivínshlauparinn Birna að lokum.

mbl.is