„Auðvitað er þetta hundleiðinlegt“

Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, segir hljóðið í starfsmönnum Íslandspósts þungt …
Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, segir hljóðið í starfsmönnum Íslandspósts þungt en uppsagnir séu óhjákvæmilegur hluti af endurskipurlagningu fyrirtækisins frá grunni sem nú eigi sér stað. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta kemur engum á óvart en auðvitað er þetta mikið sjokk því það eru ekki mörg fordæmi í ríkisfyrirtækjum að þetta hafi verið gert,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, um hópuppsögn 43 starfsmanna sem tilkynnt var í gær. 

Hann segir hljóðið þungt í starfsmönnum, eðlilega, og að stemningin í fyrirtækinu sé skrýtin. „En þetta lá alveg fyrir þegar ég var ráðinn að það þyrfti að fara í þessar aðgerðir. Ég hef verið mjög opinn og sent mjög skýr skilaboð inn í starfsmannahópinn með það að þetta væri í aðsigi.“  

Um miðjan júlí fengu allir starfsmenn tölvupóst um fyrirhugaðar uppsagnir. „Það lá ekki fyrir þá hverjir yrðu fyrir þessu eða nákvæmlega hver fjöldinn væri.“

Starfsmönnum með „pósthjarta“ sagt upp 

Vinnustaðasálfræðingur fundaði með öllum starfsmönnum Íslandspósts í morgun. „Þar er verið að fara yfir þennan tilfinningaóróa sem verður í kjölfar svona uppsagna. Við erum að reyna að gera þetta eins vel og hægt er. En auðvitað er þetta hundleiðinlegt,“ segir Birgir.  

Stöðugildi fyr­ir upp­sagn­ir voru 666 og er því um að ræða 12% fækk­un. Upp­sagn­ar­frest­ur starfs­fólks­ins sem sagt var upp í gær er þrír til sex mánuðir og því mun hagræðing­in byrja að koma fram í byrj­un næsta árs.

Meðalaldur þeirra sem sagt hefur verið upp í ár er um 50 ár. „Það er kannski ekki gríðarlega hár aldur en þetta eru oft starfsmenn sem eru búnir að vinna hérna í gríðarlega langan tíma og eru með það sem við köllum pósthjartað,“ segir Birgir. 

Á ekki von á fleiri stórum hópsuppsögnum

Upp­sagn­irn­ar eru fyrst og fremst meðal mill­i­stjórn­enda, á skrif­stofu og í póst­miðstöð. Birgir segir að um leið og ljóst var að fyrirtækið væri að fara í uppsagnafasa hafi verið ákveðið að öll­um þeim sem missa vinn­una standi til boða að fá ráðgjöf sér­fræðinga við at­vinnu­leit og sál­fræðiaðstoð. Þeir starfs­menn sem komn­ir eru ná­lægt starfs­loka­aldri fá einnig sér­staka ráðgjöf. 

„Við erum að greiða fyrir áfallahjálp og fólk getur haft samband við ákveðnar sálfræðistofur ef það kýs. Síðan erum við búin að stilla upp sérstakri ráðgjöf hjá ráðningarþjónustu,“ segir hann. 

Aðspurður hvort von sé á fleiri uppsögnum eftir áramót vill Birgir ekkert fullyrða en leggur áherslu á að verið sé að endurskipuleggja Íslandspóst frá grunni. „Auðvitað eigum við eftir að stilla upp fyrirtækinu þannig að það geti „fúnkerað“ á nútímamarkaði. Ég get því ekki sagt að þetta sé það síðasta sem gerist en ég á ekki von á því að það verði beint á þessum skala.“ 

Frímerkjasalan rekin með tapi síðustu ár

Ein af hagræðingaraðgerðunum felst í að leggja niður Frímerkjasölu Íslandspósts í núverandi mynd. Frímerkjasafnarar hafa lýst óánægju sinni með ákvörðunina en Birgir segir að Íslandspóstur sé einfaldlega að horfast í augu við raunveruleikann. 

Frímerkjastarfsemi Íslandspósts er tvíþætt. Frímerki eru annars vegar framleidd og gefin út til burðargjalda og er Íslandspóstur bundinn lagalegri skyldu að frímerki séu aðgengileg þeim sem vilja kaupa þau. „Við eigum frímerkjalager þangað til síðasta bréfið verður sent,“ segir Birgir. Hins vegar eru frímerki gefin út og seld til safnara. 

Birgir segir að tekjur af frímerkjasölu til safnara hafi minnkað jafnt og þétt síðustu ár. „Núna er það þannig að við erum að reka frímerkjaútgáfuna með tapi. Ef ríkinu finnst það vera menningarlegt hlutverk að gefa út frímerki þá verður ríkið bara að greiða fyrir það, við sem fyrirtæki getum ekki gert það.“ 

Ákvörðunin er því einföld að mati Birgis. „Þegar maður er í niðurskurði verður eitthvað að láta undan og þá fer maður náttúrulega bara þangað sem peningurinn er að leka út.“

mbl.is