Þú ert tíu þúsundasti viðskiptavinurinn!

Eyþór Jóvinsson er fjórða kynslóð bóksala í Gömlu bókabúðinni á …
Eyþór Jóvinsson er fjórða kynslóð bóksala í Gömlu bókabúðinni á Flateyri. Það gengur betur en nokkru sinni fyrr og ævintýrið heldur áfram. En Eyþór þarf að fara að huga að fimmtu kynslóð. Ljósmynd/Jorri Kristjánsson

10.000-asti viðskiptavinurinn í sumar verslaði í Gömlu bókabúðinni á Flateyri í gær. „Megi þeir verða 10.000 enn!“ segir eigandinn við mbl.is, Eyþór Jóvinsson, fjórða kynslóð bóksala í nákvæmlega þessari búð. Á næsta ári verða 100 ár liðin frá því þessi elsta verslun landsins fékk bóksöluleyfi. Og allt byrjaði á einni bók, svo bókahillu, svo bókabúð, sem nýtur enn í dag stöðugra vinsælda, samanber tíu þúsundin í sumar.

„Þetta er rosalegt,“ segir Eyþór um áfangann, viðskiptavinafjöldann, eðlilega. Hvernig telur maður 10.000 manns? „Ég bara taldi. Og þeir eru orðnir 10.000,“ segir hann. Eyþór tók við rekstrinum fyrir sex árum af móður sinni, sem enn hjálpar til í búðinni, enda þekkir hún hvern krók hennar og kima. En Eyþór rekur verslunina einn og er eini formlegi starfsmaðurinn. 

Það voru þau Anton og Tiffany, bandarískir ferðamenn sem voru …
Það voru þau Anton og Tiffany, bandarískir ferðamenn sem voru viðskiptavinir númer 10.000 í sumar. Þau voru að vonum leyst út með blómvendi og bókagjöfum. Sumarið í Bókabúðinni hefur verið eitt það besta frá upphafi, að sögn eigandans, og er verslunin orðin að einu helsta aðdráttarafli ferðamanna á Flateyri. Ljósmynd/Aðsend

Verslunin lokar á veturna en sumarið bætir fyrir þær syndir, bjargræðistíminn er frá maí og fram í september. „Helstu viðskiptavinir mínir eru ferðamennirnir og straumurinn eykst og eykst,“ segir Eyþór, sem selur fyrst og fremst íslenskar bækur, en býður vitaskuld upp á úrval bóka á erlendum tungumálum, þýsku, frönsku, ensku og svo framvegis. Auðvitað leggur þó fjöldi Íslendinga leið sína í Gömlu bókabúðina og svo eru skemmtiferðaskipin hvalreki, þaðan sem menn streyma í stríðum straumum rakleiðis inn í búð þegar skipin leggjast að bryggju á Ísafirði.

Bókabúðin sjálf er auðvitað stórmerkileg, þar hafa verið seldar bækur í sama húsi með sömu innréttingu frá því 1920, en ekki síður vekur áhuga ferðamanna íbúð kaupmannshjónanna sem er í sama húsi, langafa og langömmu Eyþórs, hjónanna Jóns Eyjólfssonar og Guðrúnar Arnbjarnardóttur. „Það er líka stórmerkilegt fyrir fólk að sjá það, það er eins og að koma inn í tímavél, enda íbúðin alveg eins og hún var hérna fyrir 70 árum,“ segir Eyþór.

Gamla íbúð kaupmannshjónanna er til sýnis, en hún hefur staðið …
Gamla íbúð kaupmannshjónanna er til sýnis, en hún hefur staðið nánast óbreytt frá árinu 1950 og er því eitt af fáum heimilum á Íslandi sem hefur varðveist í eins óbreyttri mynd. Það vekur áhuga ferðamanna og veitingasala á staðnum mun líklega gera það líka. Ljósmynd/Aðsend

Þúsund kall kílóið

Gamla bókabúðin selur eins og gamalli bókabúð sæmir fyrst og fremst gamlar bækur. Þær eru seldar í kílóavís, það er, búðin er eiginlegur kílómarkaður með bækur. Bækurnar koma úr ýmsum áttum, ýmist gjafir eða að fólk sé að losa sig við bækur, sem á of mikið af þeim. „Svo tek ég við þeim og sel þær eftir vigt, 1.000 krónur kílóið,“ segir Eyþór. „Það laumast stundum með fágætar og verðmætar ljóðabækur til dæmis, og þá eru grúskarar stundum að gera hérna hlægileg kaup, því ljóðabækur eru ekki þungar, þó að þær séu sjaldgæfar,“ segir hann. 

Bókmenntagagnrýnanda Mánudagsblaðsins þótti ekki mikið til Tímans og vatnsins koma …
Bókmenntagagnrýnanda Mánudagsblaðsins þótti ekki mikið til Tímans og vatnsins koma eftir Stein Steinarr eins og hann gerði ljóst í dómi sem hér má sjá brot úr frá 25. apríl 1949. Það er ljóst: Ljóðabækur hafa aldrei verið þungar, og er það vel, að minnsta kosti fyrir þá sem finna fágætar ljóðabækur í búðum, þar sem selt er eftir vigt. Skjáskot/Timarit.is

Til þess að höfða til ferðamanna íslenskra sem erlendra hefur Eyþór einnig lagt áherslu á bækur sem tengjast Flateyri eða nærsveitum með einum eða öðrum hætti. Þar má nefna Heimsljós Halldórs Laxness, en Ólafur Ljósvíkingur var fæddur og uppalinn á Hesti í Önundarfirði fyrstu árin, Gísla saga Súrssonar gerist á þessum slóðum auðvitað og svo er Viktor Arnar Ingólfsson rithöfundur barnabarnabarn eins stofnenda búðarinnar í upphafi 20. aldar. „Við gerum út á þessar tengingar og þetta er meðal þess vinsælasta í búðinni hjá okkur. Við höfum reynt að gera mest úr bókmenntum sem við mælum sjálf með og forðast of mikið af túristavörum og slíku. Hér áttu að geta keypt það sem þú færð ekki annars staðar,“ segir Eyþór.

Eyþór tók við rekstrinum af móður sinni fyrir sex árum. …
Eyþór tók við rekstrinum af móður sinni fyrir sex árum. Hann selur bækur eftir vigt, venjulega um 50 kg á dag, segir hann. Ljósmynd/Aðsend

Þarf að fara að undirbúa fimmtu kynslóð

„Útlendingum finnst mjög gaman að koma í elstu verslun landsins,“ segir Eyþór og meinar það: Þetta er elsta verslun landsins, þótt til séu eldri fyrirtæki. Þau eru ekki verslanir í sama skilningi, segir hann. Verslunin hóf göngu sína sem nýlenduvöruverslun en þroskaðist og varð bókabúð áðurnefnt ár, 1920. Á næsta ári eru 100 ár síðan og því verður fagnað með viðburðaröð.

Öll innrétting í þessu gamla húsi er eins og hún …
Öll innrétting í þessu gamla húsi er eins og hún var í öndverðu í upphafi 20. aldar. Þar er rekin elsta verslun landsins, Gamla bókabúðin. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er hvergi nærri hættur,“ segir Eyþór, sem tók við rekstrinum fyrir 6 árum. Þá höfðu gestirnir hvert sumar verið um 2.000 en eru nú 10.000. Mikil aukning, mikill uppgangur, og meira er í vændum. Eyþór lýsir fyrir blaðamanni áformum á hugmyndastigi um að hafa veitingasölu í gömlu kaupmannsíbúðinni, hvort sem það verða kaffi og kleinur eða matur. Eyþór er rétt kominn á fertugsaldurinn og verður þarna áfram sjálfur um ókomna tíð. En þar kemur að einhver verði að taka við keflinu, helst auðvitað afkomandi hans. „Ég þarf að fara að undirbúa fimmtu kynslóð,“ segir hann. „Það er ljóst.“

mbl.is