Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn fötluðum konum

Manninum er gefið að sök að hafa ítrekað misnotað konurnar …
Manninum er gefið að sök að hafa ítrekað misnotað konurnar og meðal annars fengið þær til að senda sér nektarmyndir. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

55 ára gamall karlmaður hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn fjórum fötluðum konum. Maðurinn var í vikunni úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart einni konunni og barnungri dóttur hennar á þeim forsendum að rökstuddur grunur væri um að hann hefði beitt konuna og nátengda ættingja kynferðisofbeldi, áreitni og haft í hótunum gagnvart þeim. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, en samkvæmt heimildum RÚV sætti maðurinn aldrei gæsluvarðhaldi meðan á umfangsmikilli rannsókn stóð. Konurnar krefja mannninn samtals um tíu milljónir króna í miskabætur.

Manninum er meðal annars gefið að sök að hafa brotið fjórum sinnum gegn einni konunni og ná brotin aftur til ársins 2014. Hann er sagður hafa villt á sér heimildir á spjallborði Facebook í þeim tilgangi að eiga í kynferðislegum samskiptum við hana. Fékk hann konuna, sem er þroskahömluð, til að senda sér kynferðislegar myndir sem hann hótaði síðan að birta opinberlega.

Þá er hann sagður hafa brotið kynferðislega gegn tveimur kvennanna, sem einnig eru þroskahamlaðar, í bíl í Norðlingaholti í Reykjavík. Í ákæru segir saksóknari að konurnar hafi ekki skilið þýðingu verknaðarins vegna fötlunar sinnar, og manninum hafi verið það ljóst vegna tengsla sinna við þær. 

Honum er gefið að sök að hafa brotið ítrekað gegn annarri þeirra á heimili sínu, lofað henni peningagreiðslum og hótað að drepa sig í þeim tilgangi að fá sendar nektarmyndir af henni.

mbl.is