Lofar að gera þetta ekki aftur

Hjálmur er nauðsynlegt öryggistæki þegar vespu er ekið.
Hjálmur er nauðsynlegt öryggistæki þegar vespu er ekið. mbl.is/Hari

Lögreglan hafði afskipti af þremur drengjum á vespu á Strandvegi síðdegis í gær. Ökumaður vespunnar náði að stinga lögreglu af eftir að hafa losað sig við farþegana tvo, sem voru hjálmlausir.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu fengust upplýsingar um hver ökumaðurinn ungi er og var hringt í hann sem og forráðamann hans. Lofaði drengurinn að gera þetta ekki aftur.

Ungur maður sem missti stjórn á vespu sinni við Álafosskvos í gærkvöldi var hins vegar ekki jafn heppinn. Hann lenti undir hjólinu og var hann fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku til aðhlynningar. Talið var að hann væri fótbrotinn en ekki er vitað nánar um meiðsl hans.

Bifreið var stöðvuð á Vínlandsleið síðdegis í gær og er ökumaðurinn, sem er aðeins 17 ára gamall, grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og brot á lyfjalögum. Að sögn lögreglu var málið unnið með aðkomu föður drengsins.

Lögreglan stöðvaði bifreið á Stórhöfða í gærkvöldi og voru tveir ungir menn í bifreiðinni. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og farþeginn er grunaður um vörslu fíkniefna.

Um klukkan 22 stöðvaði lögreglan för bifreiðar sem hafði verið ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi í miðborginni. Ökumaðurinn reyndist hafa neytt áfengis en var undir refsimörkum. Hann var einnig réttindalaus, þ.e. ökuréttindi hans voru útrunnin.

Ökumaður sem lögreglan stöðvaði í Hafnarfirði í gærkvöldi reyndist undir áhrifum fíkniefna og er auk þess grunaður um vörslu og sölu fíkniefna. Það sama á við um annan ökumann sem var einnig stöðvaður í Hafnarfirði í nótt.

Tveir ökumenn til viðbótar voru síðan stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu í nótt og eru þeir báðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is