Erill hjá lögreglu í nótt

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina. mbl.is/Hari

Tilkynnt var um æstan einstakling í Hlíðahverfi í Reykjavík á tólfta tímanum í gærkvöldi, en eftir viðræður við lögreglu hélt hann sína leið. Þá voru þrír handteknir í miðbænum rétt fyrir miðnætti, grunaðir um innbrot í bifreið. Þeir voru allir vistaðir í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina.

Tilkynnt var um líkamsárás á skemmtistað í miðbænum á öðrum tímanum. Við fyrstu sýn var um minni háttar áverka að ræða og ekki er vitað hver árásaraðilinn er. Þá var einstaklingur handtekinn vegna gruns um skemmdarverk á skemmtistað í miðbænum skömmu síðar.

Rúða var brotin í Hlíðahverfinu á þriðja tímanum og ölvaður einstaklingur handtekinn í miðbænum um svipað leyti, en sá hafði áður lamið í nokkrar bifreiðar. Hann neitaði að segja til nafns og gistir nú fangaklefa þar til af honum rennur.

Í Breiðholti var tilkynnt um ölvaðan einstakling sem var til vandræða á öðrum tímanum. Hann reyndist ósjálfbjarga og gistir fangaklefa þar til af honum rennur.

mbl.is