Leist ekki á útbúnað Belgans

Veiga gæðir sér á kleinuhring undir Hornbjargi í 2 metra …
Veiga gæðir sér á kleinuhring undir Hornbjargi í 2 metra ölduhæð. Óskar Páll sem vinnur að heimildamynd um ferðina færði henni bitann. Ljósmynd/Óskar Páll Sveinsson

Fallegt land, fólkið og vinskapurinn. Þetta stendur upp úr hjá Veigu Grétarsdóttur kajakræðara eftir hringferð sína í kringum Ísland ein á kajak. Hún lauk ferðinni í gær þegar hún reri inn Skutulsfjörðinn með hópi kajakræðara sem fylgdu henni síðasta spölinn. Veiga lagði af stað í leiðangurinn frá Ísafirði 14. maí og hefur því róið 2099 kílómetra á um 340 klukkustundum á þessum rúmu þremur mánuðum.

„Þegar ég reri inn Skutulsfjörðinn tók ég mig út úr hópnum því ég þurfti að vera ein í smá stund. Ég horfði til baka og það kom söknuður. Mig langaði að halda áfram. Þetta er svo einfalt líf: róa, tjalda, borða og sofa,“ segir hún. Til samanburðar  bendir hún á að þeir sem hafa klifið fjallið Everest tali um tómleikatilfinninguna sem hellist yfir fólk að því loknu sem kallast „Everest-þynnkuna“. Hún tengir vel við þá upplifun núna.

Einstök gestrisni

Heilsan er góð eftir þrekraunina fyrir utan eymsli í hægi hendi sem hefur plagað hana af og til í sumar. Hún er enn að átta sig á því að hún hefur lokið markmiði sínu. „Ég er með stórt landakort upp á vegg hjá mér og ég sat og horfði á það í gærkvöldi,“ segir Veiga yfirveguð.   

„Sjá landið. Hitta allt fólkið. Ég hef kynnst ofboðslega mörgu fólki um allt land. Allstaðar var tekið vel á móti mér. Mér var boðin gisting hingað og þangað, í heimahúsum og á hótelum og fólk hefur boðið mér í mat,“ segir Veiga full þakklætis spurð hvað standi upp úr eftir þrekraunina.

Hún nefnir sem dæmi að þegar hún hafi komið á land á Ströndunum og ætlað að tjalda  þvertóku heimamenn fyrir það og buðu henni gistingu í heimahúsi. „Það eru svona atriði sem standa upp úr.“ 

„Mér leist ekkert á þetta“

Ferðin gekk nokkuð vel þrátt fyrir ýmis skakkaföll. Hún veiktist á leiðinni og þurfti að taka hlé frá róðrinum á köflum. Veðrið setti einnig strik í reikninginn og þurfti hún að bíða af sér verðið. „Það var erfitt að koma sér aftur af stað eftir hlé. Maður dettur úr gírnum því þetta er ákveðin rútína. Þegar maður er byrjaður vill maður halda áfram en það er ekki alltaf hægt,“ segir hún.   

Ákafleg krefjandi er að róa í kringum Ísland, vægast sagt því aðstæður eru erfiðar, kaldur sjór og  síbreytilegt veður. „Það er ekki mælt með því að fólk geri það,“ segir Veiga og bætir við: „Það er eins gott að vera með góðan búnað og vita hvað þú ert að gera.“ Það er ekki raunin hjá öllum sem leggja á haf út á kajak, að sögn Veigu. Á ferð sinni inn Siglufjörð hitti hún belgískan mann á báti en viku seinna féll hann ofan í Þingvallavatn. Hans hefur verið leitað árangurslaust undanfarið. Belginn var á kajak á leið út Siglufjörð inn í Héðinsfjörð þegar þau mættust.

Allt annað lögmál hér á landi

Maðurinn var vanur allt öðrum aðstæðum en þeim sem eru hér á landi. „Hann var vanur að róa í heitum vötnum og í veðurblíðu. Hér er allt annað lögmál í gangi,“ segir hún. Maðurinn var í göngufötum, ekki í björgunarvesti, ekki með þurrgalla eða fatnað til að stunda sjósport. „Fyrir utan bátinn sem hann var á. Maður fer ekki á svona bát út á sjó. Ég myndi aldrei gera það. Mér leist ekkert á þetta,“ segir hún hugsi.

Eftir að Veiga hitti manninn tók björgunarfélagið á Siglufirði á móti henni við komuna í Siglufjörð „Ég sagði við björgunarfélagið að þeir mættu eiga von á útkalli en svo viku seinna fær annað björgunarfélag útkall út af þessum manni,“ segir Veiga. Eftir að hún sá tilkynninguna um að mannsins var saknað hafði hún beint samband við lögregluna og greindi frá útbúnaði hann vikunni áður.

Refur kíkti á Veigu þegar hún var í Hornvík.
Refur kíkti á Veigu þegar hún var í Hornvík. Ljósmynd/Óskar Páll Sveinsson

Batt sig við bátinn ef hún skyldi deyja

 „Ég gerði líka ráð fyrir því að ef ég myndi deyja myndi líkið finnast. Þegar ég var ein í erfiðum aðstæðum batt ég mig við bátinn. Ef hann hafði gert það hefði líkið fundist,” segir Veiga. Hún viðurkennir að hafa orðið hrædd í erfiðum aðstæðum. „Maður má ekki leyfa hræðslunni að ná tökum á sér. Um leið og þú verður hrædd verður þú stíf í skrokknum og missir jafnvægið og þá fer að ganga illa,“ segir hún. Að draga andann djúpt hjálpaði í slíkum aðstæðum og hvetjandi samræður við sjálfan sig komu líka að góðum notum.

Veiga segist hafa lært og þroskast mikið á ferðalaginu. Hún hefur kynnst sjálfri sér upp á nýtt og öðlast trú á sjálfri sér, sérstaklega sem kajakræðara. Veiga, sem er transkona, safnaði styrkjum fyrir Pieta-sam­tök­in á ferð sinni.   

Veiga komst í hann krappann í ferð sinni.
Veiga komst í hann krappann í ferð sinni. Ljósmynd/Aðsend

Góð fyrirmynd fyrir transfólk

„Fólk sem hefur verið í sjálfsvígshugleiðingum hefur sent mér skilaboð og þakkað mér fyrir. Líka transfólk sem er að byrja ferli sitt hefur þakkað mér fyrir að vera svona góð fyrirmynd. Það gefur mér rosalega mikið,” segir Veiga.

Núna nýtir hún daginn í að ganga frá búnaðinum, þurrka tjaldið og þvo þvott. Næsta mál er að finna sér vinnu. Á dagskránni eru einnig viðtöl vegna heimildarmyndarinnar sem Óskar Páll Sveinsson kvikmyndagerðarmaður vinnur að um ferðalag hennar. Fyrirlestrar eru einnig fyrirhugaðir og verður sá næsti á Stykkishólmi sem hún heldur fyrir erlenda gesti um ferðina. Hún hlakkar til framtíðarinnar eftir þessa áhrifaríkaríku reynslu.   

mbl.is