Safnar fram að atkvæðagreiðslu á Alþingi

Undirskriftum verður áfram safnað þangað til málinu lýkur á Alþingi.
Undirskriftum verður áfram safnað þangað til málinu lýkur á Alþingi. mbl.is/RAX

„Með tilliti til þess sem kom fram á fundi í Valhöll, að undirskriftirnar yrðu í besta falli hafðar til hliðsjónar þá sjáum við enga ástæðu til þess að vera skila þess fyrr en að málinu lýkur á Alþingi,“ segir Jón Kári Jónsson, formaður félags Sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavík í samtali við mbl.is RÚV greindi fyrst frá.

Undirskriftasöfnun á meðal flokksbundinna sjálfstæðismanna hefur átt sér stað síðan í byrjun ágústmánaðar og þeir sem styðja hana krefjast þess að farið verði fram á það við miðstjórn Sjálfstæðisflokksins að fram fari atkvæðagreiðsla innan flokksins um þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Jón Kári Jónsson, formaður Félags sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi …
Jón Kári Jónsson, formaður Félags sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Til þess þarf að lágmarki undirskriftir 5.000 félagsmanna, þar af hið minnsta 300 undirskriftir frá hverju kjördæmi. Til stóð að ljúka undirskriftasöfnun 25. ágúst en í ljósi skilaboða frá forystu flokksins um að ekki yrði tekið mark á vilja þeirra flokksmanna sem tóku þátt í söfnuninni hefur Jón Kári og félagar hans ákveðið að halda áfram að safna undirskriftum á meðan málið er til meðferðar á Alþingi.

Aðhald fólgið í vilja þúsunda flokksmanna

„Ég sé enga ástæðu til að hætta undirskriftum fyrr en málið er úr sögunni. Ég veit ekki hversu margar undirskriftir þetta verða og það er ekki víst að þær nái 5.000 en það er í öllu falli talsvert aðhald fólgið í því að fá undirskriftir þúsunda flokksmanna,“ segir Jón Kári.

Fjöldi undirskrifta fæst ekki gefinn upp á þessari stundu og eru Jón Kári og félagar hans að ræða það hvenær fjöldinn verður gefinn upp. Söfnunin mun halda áfram þangað til á mánudag 2. september en þá fer fram atkvæðagreiðsla á Alþingi um þriðja orkupakkann og fleiri mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert