Hafa hafnað inngöngu í áratug

AFP

Fleiri landsmenn hafa verið andsnúnir inngöngu Íslands í Evrópusambandið en hlynntir í öllum skoðanakönnunum sem birtar hafa verið hér á landi undanfarinn rúman áratug óháð því hvaða stofnun eða fyrirtæki hefur framkvæmt kannanirnar.

Fram kemur á vefsíðu MMR að tæplega helmingur landsmanna, eða 49%, sé nú andvígur því að Ísland gangi í Evrópusambandið miðað við nýjustu skoðanakönnun fyrirtækisins sem lauk 19. ágúst en innan við þriðjungur hlynntur því. Ef aðeins er tekið mið af þeim sem taka afstöðu með eða á móti eru rúmlega 61% andvíg en 39% hlynnt.

Fyrst eftir að viðskiptabankarnir þrír féllu haustið 2008 jókst stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið en dróst síðan saman smám saman þar til skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir hugveituna Andríki í júlí 2009 sýndi fleiri andvíga inngöngu.

Fjölmargar skoðanakannana hafa verið gerðar um afstöðuna til inngöngu í Evrópusambandið á þeim tíu árum sem liðin eru síðan, meðal annars af MMR, Gallup, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Fréttablaðinu/Stöð2, Maskínu og Zenter, sem allar hafa verið á þessum sömu nótum.

Graf/MMR
mbl.is