Áhyggjur af „óveðursskýjum“ í fluginu

Vilhjálmur Árnason, fyrir miðju.
Vilhjálmur Árnason, fyrir miðju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fundur umhverfis- og samgöngunefndar er að hefjast þar sem rædd verður staða innanlandsflugs á Íslandi. Vilhjálmur Árnason, sem situr í nefndinni, óskaði á dögunum eftir því að fundurinn yrði haldinn.

„Ég hef miklar áhyggjur af þessum óveðursskýjum sem eru að hrannast yfir innanlandsflugið, bæði hvað það er mikil fækkun á farþegum og yfirlýsingum rekstraraðila um rekstrarvanda hjá þeim. Þeir hafa verið að grípa til þess ráðs að fækka ferðunum, draga úr tíðni ferða til nokkurra áfangastaða,” segir Vilhjálmur.

„Þetta er akkúrat á sama tíma og við erum búin að gefa út nýja samgönguáætlun þar sem við teljum mjög mikilvægt fyrir byggðir landsins að efla innanlandsflugið,” segir hann og bendir á að lagt hefur verið til að skoska leiðin svokallaða verði farin. Telur hann brýnt að samgönguáætlun komi til framkvæmda sem fyrst.  

Á fundinum verða fulltrúar frá Erni og Flugfélagi Íslands ásamt fólki frá Isavia.

„Ég vonast til að fá betri yfirsýn yfir stöðu mála og líka hvað er til ráða. Hvað þarf að gerast til að þessi staða snúist við,” segir Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert