Hallað undan fæti síðustu þrjú ár

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli

Kjarasamningar við stórar fagstéttir og alvarlegur mönnunarvandi eru meðal ástæðna þess að hallað hefur undan fæti í rekstri Landspítalans síðustu ár. Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, í vikulegum forstjórapistli sínum. 

Nú þegar alvarleg fjárhagsstaða Landspítala er í deiglunni telur Páll rétt að árétta nokkra þætti í ljósi umræðu síðustu vikna.

„Eftir mjög erfiða aðlögun að eftirhrunsfjárframlögum, þar sem spítalinn dró saman rekstrarkostnað sinn um rúmlega 20% á ársgrundvelli, fóru fjárframlög að aukast frá árinu 2014. Sú góða þróun hefur haldið áfram og segja má að fjárveitingar liggi nú nærri þeim upphæðum (á föstu verðlagi) sem runnu til spítalans árið 2008,“ skrifar Páll. 

Á sama tíma bendir hann á að frá þeim tíma hefur þjónustan hins vegar aukist og þeim fjölgað sem hana þurfa, sér í lagi þeim sem þurfa á flókinni og dýrri þjónustu að halda. „Við erum því ekki komin á sama stað og 2008 - en reksturinn var þrátt fyrir þetta í jafnvægi árið 2016. Síðan þá hefur hallað undan fæti, einkum vegna kjarasamninga við stórar fagstéttir og alvarlegs mönnunarvanda en fleira kemur auðvitað til.“ 

Ljóst í hvað stefndi eftir fyrsta ársfjórðungsuppgjör

Halli síðasta árs nam 1,4 milljörðum og bætist við halla yfirstandandi árs og er áætlað að uppsafnaður halli verði 4,5 millj­arðar á ár­inu að óbreyttu. Páll segir að ljóst hafi verið í hvað stefndi strax þegar fyrsta ársfjórðungsuppgjör spítalans lá fyrir. 

„Við hófum þegar að vinna að aðgerðum til að mæta þessari stöðu. Þar sem ljóst var að umfangið krafðist aðgerða sem kallaði á að fagráðuneyti okkar tæki afstöðu til þá upplýsti ég heilbrigðisráðuneytið formlega þar um, í samræmi við lög um opinber fjármál,“ skrifar Páll. 

Þá tekur hann fram að Landspítalinn hafi átt í ágætu samráði við ráðuneytið um þessa alvarlegu stöðu. Aðgerðir sem ekki hefur þegar verið hrundið í framkvæmd, svo sem fyrirhugaðar breytingar á skipuriti spítalans, eru í útfærslu og ljóst að þær verða umfangsmiklar.

„Það er engum sérstök ánægja að glíma við þetta verkefni en mikilvægt að við gerum það sjálf enda engir betur til þess fallnir eða hafa af slíkum aðgerðum jafn umfangsmikla reynslu og einmitt við,“ skrifar Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert