„Mestu kjarabætur í seinni tíð“

Ásmundur Einar Daðason félagamálaráðherra kveðst ánægður með störf Bryndísar Hlöðversdóttur …
Ásmundur Einar Daðason félagamálaráðherra kveðst ánægður með störf Bryndísar Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, telur kjarasamninga sem gerðir voru fyrir almenna vinnumarkaðinn í vor fela í sér „einar mestu kjarabætur sem orðið hafa í kjarasamningum í seinni tíð,“ að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Heimsótti Ásmundur Einar nýverið Bryndísi Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara og lýsti ráðherrann ánægju sinni með störf ríkissáttasemjara í kringum samningana. „Ríkissáttasemjari átti stóran þátt í að leiða þær til lykta og verður ánægjulegt að sjá þær koma til framkvæmda á næstu vikum og mánuðum.“

Á fundi þeirra tveggja var farið „yfir stöðu þeirra aðgerða sem heyra undir félagsmálaráðuneytið í tengslum við lífskjarasamningana frá því í vor. Aðgerðirnar snúa meðal annars að húsnæðismarkaðnum og félagslegum undirboðum,“ að því er segir á vef Stjórnarráðsins.

Þar er jafnframt tekið fram að stefnt sé að því að frumvörp sem tengjast fyrrnefndum málaflokkum verði lögð fram á næsta þingi sem hefst í haust.

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari.
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari. mbl.is/Hari
mbl.is