Metverð fyrir kommóðumynd Kristjáns

Kommóðumynd eftir Kristján Davíðsson. Myndin seldist fyrir metverð á uppboði ...
Kommóðumynd eftir Kristján Davíðsson. Myndin seldist fyrir metverð á uppboði hjá Fold.

Metverð fékkst fyrir kommóðumynd eftir Kristján Davíðsson á listmunauppboði hjá Fold í kvöld, en myndin var slegin með hamarshöggi á 5,7 milljónir. Með þeim gjöldum sem ofan á leggjast er heildarverð myndarinnar 7,4 milljónir.

„Það er hæsta verð sem hefur fengist á uppboði fyrir verk eftir Kristján Davíðsson,“ segir Jóhann Ágúst Hansen, uppboðshaldari hjá Fold, í samtali við mbl.is og kveður mikla eftirspurn hafa verið eftir myndinni.

„Það voru nokkrir að bjóða í hana í salnum og svo vorum við með sjö manns í símanum sem voru með bjóðendur víðs vegar um heiminn,“ segir hann. Á endanum var það þó Íslendingur sem bauð hæst og því verður myndin áfram hér á landi.

Jóhann Ágúst segir kommóðumyndirnar vinsælar en þær rati þó sjaldan á uppboð. „Ég held við höfum síðast verið með eina árið 2006,“ segir hann og kveður því óvíst hvenær næsta slík mynd komi.

„Fólk þekkir mjög vel abstraktmótífin hans og það er til mikið af þeim, en það er til miklu minna af þessum mótífum og þær þykja skemmtilegar. Þetta er líka falleg mynd og mjög góð samsetning í henni.“ 

Meðal annarra verka sem boðin voru upp í kvöld var veggverk úr marglitu gervihári eftir Hrafnhildi Arnardóttur, betur þekkta sem Shoplifter, sem er fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum sem nú fer fram á Ítalíu. Það verk var slegið á 440.000 kr. sem er talsvert undir ásettu verði. „Þetta er verk sem ætti nú alveg að seljast á fullu verði,“ segir Jóhann Ágúst.

Pappírsverk eftir þá Jóhannes S. Kjarval og Gunnlaug Scheving fóru þá yfir fullu verði, en pappírsverk eftir Nínu Tryggvadóttur seldist undir verðmati. „Þetta var ómerkt æskuverk,“ útskýrir Jóhann Ágúst.

Ágætis verð fékkst einnig fyrir verk eftir Barböru Árnason að sögn Jóhanns Ágústs sem segir töluvert meiri mætingu hafa verið nú en á uppboðinu í vor. Auk þeirra 120-130 sem voru í salnum hafði Fold áður fengið um 50 forboð í verk og þá voru einhverjir tugir til viðbótar sem buðu í verkin símleiðis.

mbl.is