Næsta orkupakkaumræða í sjónmáli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir málinu ekki lokið með …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir málinu ekki lokið með samþykkt þriðja orkupakkans. mbl.is/Eggert

Mikill meirihluti þingmanna hefur samþykkt bæði þriðja orkupakka Evrópusambandsins vegna aðildar Íslands að EES-samningnum og önnur þingmál honum tengd. Þar á meðal breytingar á raforkulögum og lögum um Orkustofnun til þess að innleiða pakkann.

Fá mál hefur verið tekist jafn mikið á um á Alþingi og þriðja orkupakkann og tók umræðan um málið í þinginu þannig samanlagt um 148 klukkustundir, en mikil umræða var um það í vor, daga og nætur, þar sem einkum þingmenn Miðflokksins komu við sögu.

Deilt var um það hvort samþykkt og innleiðing þriðja orkupakkans stangaðist á við stjórnarskrá lýðveldisins varðandi framsal valds úr landi og hvort samþykkt hans yrði til þess að stjórnvöld gætu ekki hafnað umsókn um lagningu raforkusæstrengs.

Hvað gerist nú?

„Hvað gerist nú?“ spyrja sig vafalaust margir. Þingmenn Miðflokksins hafa sagt að málinu sé engan veginn lokið þótt þriðji orkupakkinn hafi verið samþykktur. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að nú byrji málið fyrir alvöru.

Þannig segir Sigmundur í samtali við mbl.is í dag að nú komi í ljós hver áhrifin af samþykkt þriðja orkupakkans verði. Þau muni koma í ljós í gegnum minnkandi vald lýðræðislega kjörinna fulltrúa, og þar með almennings, yfir íslenskum orkumálum.

Ennfremur hafa sjónir beinst að næsta orkupakka Evrópusambandsins, þeim fjórða, sem hefur þegar verið samþykktur af sambandinu. Innan tíðar kemur pakkinn inn á borð sameiginlegu EES-nefndarinnar og í gegnum hana inn í EES-samninginn.

Ráðamenn hafa lítið tjáð sig um fjórða pakkann sem andstæðingar þriðja orkupakkans segja að verði að þeirra mati enn verri en sá þriðji. Fyrir vikið má reikna með að umræðu um orkupakka frá Evrópusambandinu sé engan veginn lokið hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina