Þriðji orkupakkinn samþykktur

Frá atkvæðagreiðslunni um þriðja orkupakkann á Alþingi í morgun.
Frá atkvæðagreiðslunni um þriðja orkupakkann á Alþingi í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Þriðji orkupakki Evrópusambandsins var samþykktur af miklum meirihluta þingmanna á Alþingi í atkvæðagreiðslu eða 46 atkvæðum gegn 13.

Þingmenn stjórnarflokkanna, Vinstrihreyfingarinnar  græns framboðs, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, greiddu atkvæði með orkupakkanum auk þingmanna Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata að undanskildum þeim Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, og Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata.

Tekist var áfram á um þriðja orkupakka Evrópusambandsins á Alþingi í dag í aðdraganda þess að greidd voru atkvæði um þingsályktun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um samþykkt hans. Sem fyrr voru mjög skiptar skoðanir um málið.

Guðlaugur Þór sagði að málið hefði fengið mikinn og góðan undirbúning og væri fullrætt. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók undir það. Málið væri fyrir löngu fullreifað og skýrir fyrirvarar hafðu verið settir vegna mögulegs sæstrengs kæmi til hans. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði málið snúast um þátttöku í EES-samningnum.

Þriðji orkupakkinn ekki áhættunnar virði

Ásmundur Friðriksson lýsti því yfir við atkvæðagreiðsluna að hann myndi ekki ekki greiða atkvæði með þriðja orkupakkanum. Málið snerist um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Það væri ekki áhættunnar virði. Hann var eini stjórnarþingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn pakkanum en fyrr á þessu ári var greint frá því að hann hefði það í hyggju.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði ekkert hættulegt í þriðja orkupakkanum en hvatti fólk til þess að kynna sér málið sjálft í stað þess að trúa stjórnmálamönnum. Sagði hann málið sýna nauðsyn þess að samþykkja nýja stjórnarskrá.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði ljóst af skoðanakönnunum að fólk hefði kynnt sér málið og tekið afstöðu til þess. Það væri einkennilegt að stjórnmálamenn kæmu síðan og segðu almenningi að hann hefði ekki kynnt sér það.

Sakaði andstæðinga um „pólitíska rányrkju“

Jón Þór tók undir með Helga Hrafni varðandi stjórnarskrána. Hann myndi greiða atkvæði gegn orkupakkanum vegna þess að hann teldi að fyrst þyrfti að breyta henni, en hann hafði fyrr á árinu greint frá því að hann ætlaði að greiða atkvæði gegn pakkanum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gagnrýndi andstæðinga þriðja orkupakkans og sagði ljóst að fleiri mál yrðu „hertekin“ með sama hætti. Þá sakaði hún andstæðinga orkupakkans um „pólitíska rányrkju“ þegar málið væri annars vegar.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, sagði að ef það væri þjóðrembingur að standa vörð um hagsmuni Íslands þá væri hann þjóðrembingur.

Eftir samþykkt þriðja orkupakkans tóku við atkvæðagreiðslur um þingmál sem tengjast orkupakkanum. Hér má fylgjast með umræðunni á Alþingi:

 -

mbl.is