Skora á Katrínu að hafna milliríkjaviðskiptum við Bandaríkin

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun funda með Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun funda með Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Loftslagshópur Landverndar skorar á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að hafna öllum milliríkjaviðskiptum Íslands við Bandaríkin og önnur ríki sem uppfylla ekki Parísarsamkomulagið.  

Þetta var samþykkt á fundi loftslagshópsins í kvöld, en hópurinn hyggst slást í lið með þeim sem ætla að mótmæla á Austurvelli á morgun veru Mikes Pence varaforseta Bandaríkjanna hér á landi.

„Forsætis- og umhverfisráðherra hafa ítrekað tekið fram að tími róttækra aðgerða í loftslagsmálum sé núna. Í því felst m.a. að taka ákvarðanir gagnvart öðrum ríkjum sem losa hvað mest en neita því að taka ábyrgð á vandanum,“ segir í ályktuninni.

Hvetur hópurinn forsætisráðherra til að standa við orð sín og nýta tækifæri sem gefist á morgun „til að ná athygli alþjóðapressunnar og vera alvöruleiðtogi í loftslagsmálum, sem heimurinn og þjóðin þarf svo gjarnan á að halda“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert