Mike Pence mættur í Höfða

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, við komuna í Höfða.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, við komuna í Höfða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er mættur ásamt fylgdarliði í Höfða. Bílalest varaforsetans renndi í hlað rétt eftir klukkan tvö, en vél hans, Air Force 2, lenti í Keflavík rétt fyrir klukkan eitt. 

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid við komuna í Höfða …
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid við komuna í Höfða í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gríðarlegur viðbúnaður er við Höfða og í nágrenni og að sögn lögreglu eru aðgerðirn­ar þær um­fangs­mestu í ára­tugi. Götulokanir eru í Borgartúni, Sæbraut og nágrenni og átti ökumaður rútunnar sem flutti fjölmiðlafólk frá utanríkisráðuneytinu í Höfða í mesta basli með að komast á áfangastað. Það hófst þó eftir góð samskipti við lögreglu og sérsveitarmenn. 

Viðskiptaþing með lykilfólki úr íslensku og bandarísku viðskiptalífi

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og Eliza Reid forsetafrú tóku á móti Pence við komuna í Höfða og munu þau drekka saman kaffi áður en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tekur á móti Pence. Þeir munu flytja stutt ávörp áður en viðskiptaþing hefst í hliðarsalnum í Höfða. Lykilfólk úr íslensku viðskiptalífi mun sitja málþingið, en þau eru: Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, Guðmundur Fertram Sigurjónsson í Kerecis, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Þá munu fulltrúar úr bandarísku viðskiptalífi einnig sitja málþingið. 

Starfsfólk Arion banka í Borgartúni fylgist grannt með komu Mike …
Starfsfólk Arion banka í Borgartúni fylgist grannt með komu Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, sem mun funda með íslenskum ráðamönnum í Höfða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í yfirlýsingu Hvíta hússins í tilefni af Íslandsheimsókn Pence segir að varaforsetinn muni leggja áherslu á hernaðarlegt mikilvægi Íslands á norðurslóðum sem og aðgerðir NATO til að bregðast við auknum umsvifum Rússa á norðurslóðum. Þá mun hann einnig leggja áherslu á að útvíkka viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna. 

Guðlaugur Þór hefur lagt áherslu á að viðskiptasamband ríkjanna verði rætt í heimsókninni, en fundinum í Höfða í dag hefur verið lýst sem málþingi um viðskipti milli ríkj­anna tveggja. 

Mikill viðbúnaður við Höfða.
Mikill viðbúnaður við Höfða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Silja Bára Ómarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sagði í Kastljósi í gærkvöldi að tvíhliða samskipti á sviði viðskipta við smáríki eins og Ísland gætu tæpast verið aðalástæða jafn umfangsmikillar heimsóknar og varaforseta Bandaríkjanna, pólitískar og hernaðarlegar ástæður lægju einnig að baki. Það yrði því að teljast líklegt að öryggis- og varnarmál yrðu einnig á dagskrá varaforsetans á fundum hans með íslenskum ráðamönnum í dag, ekki síst sökum aukinnar viðveru Bandaríkjahers hér á landi síðustu vikur og mánuði.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, við komuna á Keflavíkurflugvelli.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, við komuna á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert