Dreifðu nasistaáróðri á Kársnesinu

Frá Kársnesinu.
Frá Kársnesinu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fjórir karlmenn gengu um Kársnesið í Kópavogi í gær og dreifðu nasistaáróðri. Annars vegar var um að ræða dreifirit sem þeir settu inn um bréfalúgur íbúðarhúsa og hins vegar límmiða sem þeir límdu meðal annars á skilti í hverfinu, rafmagnskassa og á fleiri staði.

Mikil umræða hefur farið fram í facebookhópi íbúa á Kársnesi og ljóst af henni að fólk er almennt mjög reitt vegna uppátækisins. Fram kemur í dreifiritinu að samtökin Norðurvígi standi að baki áróðrinum en um er að ræða nýnasistasamtök sem eru hluti af nasistahreyfingu sem er einnig með starfsemi víða annars staðar á Norðurlöndunum.

Fram kemur í dreifiritinu að stefna Norðurvígis byggist á þjóðernisfélagshyggju sem er bein þýðing á þýska hugtakinu „Nationalsozialismus“ sem aftur er sú stefna sem þýskir nasistar undir forystu Adolfs Hitlers, sem var einræðisherra Þýskalands á fyrri hluta síðustu aldar og fyrirskipaði meðal annars morð á milljónum gyðinga, stóðu fyrir.

Meðal annars segir þannig í dreifiritinu: „Vegurinn framundan kallast þjóðernisfélagshyggja og við munum ná til betri framtíðar með róttækri baráttu.“ Fyrirsögn dreifiritsins, „Ísland vakni“, er bein skírskotun í eitt helsta slagorð þýskra nasista, „Deutschland erwache“ eða „Þýskaland vakni“. Þá hafa samtökin meðal annars staðið fyrir auglýsingum á netinu þar sem notuð hefur verið mynd af Hitler.

Fram kemur í umræðunni í facebookhópnum að haft hafi verið samband við lögregluna vegna málsins sem hafi hvatt fólk til að hafa samband ef þetta endurtaki sig svo hafa megi hendur í hári þeirra sem standa fyrir þessu. Mbl.is hafði samband við lögreglustöðina í Kópavogi en fékk þau svör að málið hefði ekki verið skráð hjá lögreglunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert