Treystir Áslaugu fullkomlega fyrir embættinu

Þórdís Kolbrún er glöð fyrir hönd Áslaugar.
Þórdís Kolbrún er glöð fyrir hönd Áslaugar. mbl.is/​Hari

„Hún er óhrædd en ekki hvatvís. Hún hlustar og er dugleg að leita ráða hjá fólki í kringum sig. Hún er hugrökk, kjarkmikil og tekur sjálfa sig ekki of alvarlega en tekur verkefnin sem hún ber ábyrgð á mjög alvarlega.“

Þannig lýsir fráfarandi dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, væntanlegum arftaka sínum Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í samtali við mbl.is í Valhöll stuttu eftir að ákvörðunin var tilkynnt. Hún segist treysta Áslaugu fullkomlega fyrir verkefninu.

„Ég treysti henni mjög vel og er ótrúlega stolt. Hún mun vanda sig og hafa auðmýkt til að leita sér ráðgjafar. Hún hefur sýnt að hún tekur hvert verkefni og afgreiðir þau vel,“ sagði hún eftir fundinn.

Eigi að dæma fólk út frá verkum sínum

Spurð hvort Þórdís hafi áhyggjur af því að ákvörðunin verði gagnrýnd með vísan til aldurs Áslaugar svarar hún:

„Örugglega mun hún fá gagnrýni út á það. Hún hefur hingað til fengið þá gagnrýni og ég fékk gagnrýni fyrir það. En ég segi um hana eins og ég segi með mig og alla sem fara í stjórnmál að fólk á að vera dæmt af verkum sínum.“

Áslaug sýnt og sannað að hún er vel fær að valda starfinu

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt að hann er tilbúinn til að treysta ungu fólki og ég held að Áslaug hafi alveg sannað það með störfum sínum að hún er vel fær um að taka að sér flókin og vandasöm verkefni,“ segir Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í samtali við mbl.is um þá ákvörðun að velja Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í embætti dómsmálaráðherra.

Spurður hvort hann telji að einhverjir muni gagnrýna ákvörðunina með vísan til aldurs Áslaugar segir hann: „Ef slík gagnrýni kemur fram þá held ég að það væri mjög ósanngjörn gagnrýni.“

Birgir Ármannsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins ræddi við fjölmiðla eftir fundinn. Hann …
Birgir Ármannsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins ræddi við fjölmiðla eftir fundinn. Hann óskaði góðvinkonu sinni til hamingju með embættið. mbl.is/​Hari

„Áslaug hefur þekkingu á málasviðinu bæði sem lögfræðingur og sem fyrrverandi formaður allsherjar- og menntamálanefndar. Hún hefur auðvitað fengið á stuttum tíma eldskírn í störfum sínum í þinginu og er líka ritari flokksins og hefur aflað sér mikillar reynslu sem slíkur,“ bætir hann við.

„Ég styð þessa niðurstöðu“

Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafði verið nefndur sem einn af mögulegum valkostum Bjarna Benediktssonar í embættið.

Hann sagði í samtali við fjölmiðla eftir að ákvörðunin um að velja Áslaugu Örnu var kynnt að hann væri sáttur við niðurstöðuna og hefði greitt atkvæði með tillögu formannsins.

Ákvörðunin kom honum ekki á óvart en hann sagðist hafa sínar skoðanir á málinu sem lúta að hans kjördæmi en gerði engar athugasemdir.

„Menn geta haft allar skoðanir á þessu en ég styð þessa niðurstöðu,“ bætti hann við.

Tillaga Bjarna um að skipa Áslaugu Örnu í embætti dómsmálaráðherra var studd einróma af öllum þingmönnum flokksins.

Fréttin var uppfærð klukkan 19:09.

Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins studdi niðurstöðu fundarins en sagðist hafa …
Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins studdi niðurstöðu fundarins en sagðist hafa sínar skoðanir á málinu. mbl.is/​Hari
mbl.is