Vill sameina öll lögregluembættin

Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, segir skipulag lögreglu …
Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, segir skipulag lögreglu hafa gengið sér til húðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skipulag lögreglu hefur gengið sér til húðar og sameina á öll lögregluembættin í landinu að sögn Jóns F. Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá embætti ríkislögreglustjóra. Hann segir að þannig væri hægt að koma í veg fyrir togstreitu og átök um fjármuni og að ekki sé til fé til að standast gæðakröfur.

Þetta kom fram í viðtali RÚV við hann í kvöld, en Jón vonast til þess að innan þriggja ára verði lögreglan orðin ein stofnun.  

Stjórnsýsluúttekt á ríkislögreglustjóra sögð tímabær

Stjórn Landssambands lögreglumanna lýsti þeirri skoðun í dag að ákvörðun dómsmálaráðuneytis um að fara fram á alhliða stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra væri löngu tímabær. „Um langt skeið hefur ríkt mikil óánægja meðal lögreglumanna með störf yfirstjórnar embættis ríkislögreglustjóra,“ sagði í ályktun sem stjórnin sendi frá sér.

Jón F. Bjartmarz.
Jón F. Bjartmarz.

Fram kemur að óánægj­an sé m.a. til kom­in vegna fata­mála lög­reglu­manna sem hafi verið í ólestri en einnig vegna annarra mála, s.s. bíla­mála. „Ljóst er að lög­reglu­embætti hafa þurft að greiða háar fjár­hæðir til bílamiðstöðvar rík­is­lög­reglu­stjóra vegna öku­tækja lög­reglu, þrátt fyr­ir að þau séu jafn­vel úr sér geng­in, sbr. frétt­ir und­an­farna daga. Einnig hafa mál­efni sér­sveit­ar rík­is­lög­reglu­stjóra verið til um­fjöll­un­ar og styður stjórn Lands­sam­bands lög­reglu­manna er­indi þeirra sér­sveit­ar­manna sem sent var dóms­málaráðaneyti til um­fjöll­un­ar,“ seg­ir í álykt­un stjórn­ar­inn­ar. 

Lýstu furðu á ályktuninni

Embætti ríkislögreglustjóra lýsti yfir furðu á yfirlýsingu landssambandsins og meðal annars kom fram að stjórn landssambandsins hefði ekki haft neitt samband við embætti ríkislögreglustjóra til að ræða áhyggjurnar eða sett fram nokkur umkvörtunarefni.

„Lands­sam­band lög­reglu­manna á full­trúa bæði í fata- og búnaðar­nefnd og bíla­nefnd embætt­is­ins og hef­ur formaður­inn meðal annarra sjálf­ur setið í þeim. Full­trúi lands­sam­bands­ins hef­ur unnið með embætt­inu að útboði á ein­kenn­is­fatnaði fyr­ir lög­reglu­menn sem birt­ast mun inn­an skamms. Þegar ligg­ur fyr­ir að bílamiðstöð verður lögð niður og mik­il­vægt er að nýtt fyr­ir­komu­lag tryggi að áfram verði keypt traust og öfl­ug lög­reglu­öku­tæki,“ seg­ir í at­huga­semd rík­is­lög­reglu­stjóra.

„Rík­is­lög­reglu­stjóri hafði sjálf­ur frum­kvæði að því að óska eft­ir því við rík­is­end­ur­skoðanda að fram færi út­tekt á bílamiðstöð og áhrif­um þeirra breyt­inga sem ný lög um op­in­ber fjár­lög hafa haft á rekst­ur­inn. Rík­is­lög­reglu­stjóri tel­ur að tíma­bært sé að hugað verði að framtíðar­skip­an lög­reglu og skyn­sam­legt væri að stjórn­sýslu­út­tekt rík­is­end­ur­skoðanda myndi bein­ast að heild­ar­end­ur­skoðun lög­reglu­mála í land­inu,“ seg­ir enn­frem­ur.

mbl.is