Breytingar ekki raunhæfar með ríkislögreglustjóra í embætti

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (fyrir miðju) á …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar (fyrir miðju) á fundi nefndarinnar í morgun þar sem málefni lögreglunnar voru meðal annars til umræðu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hlutverk þessa fundar var að líta í baksýnisspegilinn, að sjá hvernig það má vera að staðan sé eins og hún er orðin í dag og hvað er hægt að gera í því hvað varðar yfirstjórn lögreglumála,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í samtali við mbl.is. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ræddi málefni lögreglunnar á fundi nefndarinnar í morgun.

Þórhildur Sunna segir að henni finnist að betur hefði mátt fylgja eftir þeim skipulagsbreytingum sem gerðar voru á skipulagi innan lögreglunnar fyrir nokkrum árum. 

Áslaug Arna segir til skoðunar að sameina embætti Ríkislögreglustjóra og Lögreglu höfuðborgarsvæðisins og hefur verið sett af stað vinna í ráðuneytinu varðandi skipulag lögreglunnar sem ráðherra segir að miði vel. Sameingin var rædd lítillega á fundinum. „Það er tilefni til að endurskoða þetta fyrirkomulag sem var komið á fyrir ekki svo löngu og við fórum yfir kosti og galla þess að gera það. Þetta er stuttur tími sem ráðherra hefur til að gera það,“ segir Þórhildur Sunna. 

Hún segir raunhæft að koma með tillögur að skipulagsbreytingum á nokkrum vikum en á sama tíma telur hún það ekki raunhæft á meðan Haraldur Johannessen situr áfram í embætti ríkislögreglustjóra. „Mín persónulega skoðun er að meðan svona mikil deila stendur um hann í embætti þá eigi hann að víkja svo sú vinna geti farið fram í friði.“

Ef staða Haraldar verður óbreytt áfram segir Þórhildur Sunna að ráðherra verði látin svara fyrir embættisgjörðir sínar á Alþingi, þar sem hún hefur allar lagaheimildir til að bregðast við.

Varðandi næstu skref nefndarinnar í málinu segir Þórhildur Sunna að nefndin muni taka afstöðu til skýrslu ríkisendurskoðunar um málefni lögreglunnar þegar hún liggur fyrir. „Við munum fylgja því eftir þar, þess vegna fannst mér líka gott að fá forsöguna núna til að hafa tíma til að melta þetta og til þess að hafa samhengi til að setja skýrsluna í. Úr henni koma svo tillögu um úrbætur, ég býst við því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert