Farið verði varlega í skipulagsbreytingar

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins.
Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins. mbl.is//Hari

„Óhætt er að segja að staðan sem þar er uppi sé með öllu fordæmalaus. Lögreglan er ein mikilvægasta stofnun í landinu og því er mikilvægt að vandað sé til verka þegar kemur að skipulagsmálum lögreglu,“ sagði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins þar sem hann ræddi stöðu lögreglunnar.

„Samkvæmt mælingum hefur lögreglan mælst með mjög mikið traust árum saman og verður ekki annað sagt en að hún hafi staðið undir því og það, eitt með öðru, hefur létt mjög öll störf lögreglu. Mikilvægt er að varðveita það traust. Við megum ekki leyfa okkur að málið sem nú er uppi verði þæft með því að taka undir þær raddir sem tala fyrir því að fara verði í viðamiklar og afdrifaríkar skipulagsbreytingar í lögreglunni.“

Tæp fimm ár væru frá því að verulegar breytingar hefðu verið gerðar á umdæmum lögreglu þar sem þau hafi verið stækkuð og þeim fækkað úr hálfum þriðja tug niður í níu.

„Ég tel að ekki séu nein efni til þess að ana út í skipulagsbreytingar hjá lögreglunni og alls ekki að fara í þær að lítt athuguðu máli. Allt niðurrifstal um lögreglu þjónar engum tilgangi nema þeim að rýra og minnka tiltrú á lögreglunni og menn verða að átta sig á ábyrgð sinni í þeim efnum. Það er mín skoðun að úrlausn þessa máls megi ekki dragast deginum lengur vegna þess að mestan skaða af því ber lögreglan í landinu og við megum ekki við því.“

mbl.is