Mótmælti „pólitísku sjónarspili“ formanns

„Málefni lögreglunnar heyra undir ráðherra og það er ráðherra að …
„Málefni lögreglunnar heyra undir ráðherra og það er ráðherra að leysa úr þeim vandamálum sem þarna eru,“ segir Brynjar Níelssonar, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í sjtórnskipunar- og eftirlitsfundar. Hann sat upphaf fundarins í morgun en vék svo þegar málefni lögreglunnar voru rædd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brynjar Níelsson segist hafa gengið út af fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar áður en dómsmálaráðherra mætti og að það hafi hann gert til þess að mótmæla vinnubrögðum Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, formanns nefndarinnar.

„Fundurinn hefst og ég andmæli því að formaður taki sér það að boða fund af þessu tagi án þess að tala við kóng eða prest. Ég gekk út áður en ráðherra kom inn,“ segir Brynjar, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

„Stóra atriðið í þessu er það að ég lít á svona uppákomur hjá nefndarformanni sem pólitískt sjónarspil. Málefni lögreglunnar heyra undir ráðherra og það er ráðherra að leysa úr þeim vandamálum sem þarna eru.“

Tekur ekki þátt í nefndarsýndarmennsku

Brynjar segir þingmenn ekkert hafa með það að gera að vera með uppákomur sem þessar. „Það væri þá ekki fyrr en að lokinni ákvörðun ráðherra, ef nefndin teldi hana ekki vera að lögum eða slíkt.“

„Það er bara orðin lenska hér á þessu þingi, ef einhver maður er handtekinn á Austurvelli, þá eru einhverjir þingmenn komnir með þetta inn á nefndarfund. Það er þetta sem ég er að andmæla og ég ætla ekki að vera þátttakandi í einhverju svona.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert