„Ég er ekki sérfræðingur“

Ásmundur Einar steig í pontu að opnunarávarpi Gunnhildar Fríðu Hallgrímsdóttur, …
Ásmundur Einar steig í pontu að opnunarávarpi Gunnhildar Fríðu Hallgrímsdóttur, nemanda og aðgerðasinna, og sagði ferskleika fylgja eldmessu sem þessari og raunar erfitt að koma á eftir. mbl.is/Árni Sæberg

„Við þurfum reglulega að láta minna okkur á hvers vegna við erum hér og hvert við erum að fara,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, í ávarpi sínu á ráðstefnunni Breytingar í þágu barna sem fram fer í Hörpu í dag.

Hann steig í pontu að opnunarávarpi Gunnhildar Fríðu Hallgrímsdóttur, nemanda og aðgerðasinna, loknu og sagði ferskleika fylgja eldmessu sem þessari og raunar erfitt að koma á eftir.

Ásmundur Einar tók undir með Gunnhildi Fríðu og sagði unga fólkið sérfræðinga að vera ungt fólk, en ekki þá sem staddir væru á ráðstefnunni. „Ég er ekki sérfræðingur. Það er enginn sérfræðingur nema á sínu sviði en saman getum við gert góða hluti.“

„Þegar þessum degi lýkur förum við í aðgerðir.“

„Hér er allt til alls svo að svo megi verða“

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpaði ráðstefnuna á eftir Ásmundi Einari og sagði alla sem saman væru komnir í Norðurljósasal Hörpu sammála um eitt: að gera Ísland að einu besta landi í heimi til að búa í fyrir ungt fólk. „Og hér er allt til alls svo að svo megi verða.“

Sagði Lilja að til þess að gera Ísland að einu besta landinu fyrir ungt fólk þyrfti fyrst og fremst framúrskarandi menntakerfi þar sem hlúð væri að starfsfólki þess. 

„En hvað einkennir framúrskarandi menntakerfi?“ spurði Lilja og svaraði því sjálf til að það væri forgangsröðun í þágu barna, að samfélögin vissu að kennarastarfið, á öllum stigum, væri mikilvægasta starfið, og sú nálgun að öll börn geti lært.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert