Fer fram á yfir milljarð í bætur

Fjölskylda Tryggva Rúnars Leifssonar: Tryggvi Rúnar Brynjarsson, Kristín Anna Tryggvadóttir …
Fjölskylda Tryggva Rúnars Leifssonar: Tryggvi Rúnar Brynjarsson, Kristín Anna Tryggvadóttir og Sjöfn Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Sólrún Lilja Ragnarsdóttir

Fjölskylda Tryggva Rúnars Leifssonar, sem dæmdur var í 13 ára fangelsi fyrir um 40 árum vegna aðildar að Guðmundar- og Geirfinnsmálum en síðan sýknaður áratugum síðar, fer fram á yfir einn milljarð króna í bætur frá ríkinu vegna málsins.

Þetta staðfestir Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður fjölskyldunnar, í samtali við mbl.is. Hann segir að stuðst sé við sömu aðferðafræði við útreikning eins og í tilfelli Kristjáns Viðars Júlíussonar sem einnig var dæmdur og síðan sýknaður vegna málsins. Þar sé byggt á dómaframkvæmd Hæstaréttar í fordæmisgefandi málum.

Páll Rúnar segir upphæðina lægri en í tilfelli Kristjáns enda hafi Tryggvi setið skemur í fangelsi en hann. Kristján sat í gæsluvarðhaldi og síðan fangelsi í um sjö og hálft ár en Tryggvi í tæplega sex ár. Einnig er tekinn inn í myndina sá langi tími sem þeir voru álitnir sekir af samfélaginu þar til þeir voru að loks sýknaðir af dómstólum.

Ríkisútvarpið greinir frá því að samanlagt hljóði framkomnar kröfur um bætur vegna málsins upp á rúmlega fjóra milljarða króna, en Albert Klahn Skaftason fer fram á 100 milljónir króna og Guðjón Skarphéðinsson 1,3 milljarða. Ekki hefur verið gefið upp hvaða kröfu börn Sævars Ciesielskis gera en hann fékk þyngsta dóminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert