„Þetta er dauðans alvara“

„Við megum því aldrei gleyma voninni. Þótt ógnin sé raunveruleg ...
„Við megum því aldrei gleyma voninni. Þótt ógnin sé raunveruleg og rækilega staðfest af vísindafólki þá eru lausnirnar það líka,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, meðal annars á umhverfismálþingi ASÍ í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öllu máli skiptir að halda í vonina þegar kemur að loftslagsvánni og loftslagsbreytingum. Þótt ógnin sé raunveruleg þá eru lausnirnar það líka.

Þetta er meðal þess sem kom fram í ávarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, á umhverfismálþingi ASÍ sem hófst í morgun. Á málþinginu er fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á vinnumarkaðinn og hvernig verkalýðshreyfingin geti brugðist við. 

Yfirskrift málþingsins er „Engin störf á dauðri jörð“. „Ég verð að viðurkenna að mér brá svolítið þegar ég sá titilinn, en hafandi hlotið menntun í umhverfisfræðum og verið í þessum bransa alla mína starfstíð þá verð ég að segja að ég geri mér jafnframt grein fyrir því að þetta er dauðans alvara og titillinn ykkar er þannig að við eigum að forðast að hann verði að sönnu,“ sagði Guðmundur Ingi. 

Ótti leiðir ekki alltaf til góðra ákvarðana

Í framhaldinu benti hann á þá staðreynd að hamfarahlýnun af mannavöldum hefur nú þegar áhrif á atvinnulíf, efnahag og lífskjör almennings víða um heim. „Takist okkur ekki að snúa blaðinu við og tryggja að aðgerðir okkar skili árangri munum við sjá jökla hverfa og lífverur deyja út, við munum þurfa að kveðja kóralrif heimsins og eyjur sem áður voru byggilegar.“

Hann sagði umræðu á þessum nótum auðveldlega geta valdið ótta, sem leiði ekki alltaf til góðra ákvarðana. „Við megum því aldrei gleyma voninni. Þótt ógnin sé raunveruleg og rækilega staðfest af vísindafólki þá eru lausnirnar það líka,“ sagði ráðherra. 

Fyrirtæki og félagasamtök tvöfaldi aðgerðir ríkisins

Í ávarpi sínu fór hann yfir þær margvíslegu aðgerðir sem hið opinbera hefur gripið til hér á landi og þær aðgerðir sem eru fram undan. „Báðum meginþáttum aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum hefur verið hrint í framkvæmd og endurskoðun hennar er nú í fullum gangi,“ sagði Guðmundur Ingi. 

En ráðherra á sér draum sem nær fram yfir aðgerðir ríkisins gegn loftslagsvánni.  „Minn draumur er sá að fyrirtækin í landinu, félagasamtök, samtök eins og ykkar, komi saman í það að við reynum hið minnst að tvöfalda þar sem ríkið er núna að auka við. Þannig að við getum sett okkur alvöru markmið þegar kemur að endurheimt vistkerfa og komist í það á næstu misserum.“

Fagnar vakningu í umhverfismálum

Guðmundur Ingi sagði augljóst að grípa þurfi til frekari aðgerða tengd loftslagsmálum og fagnar hann þeirri vakningu sem loksins hefur orðið, ekki síst fyrir tilstilli ungs fólks. „Þeirra ákall og sá kraftur sem fylgir baráttu þeirra hjálpar mikið við að færa loftslagsmálin ofar í forgangsröðinni – ofar hjá stjórnvöldum, ofar hjá fyrirtækjum, félagasamtökum og almenningi.“

Umhverfisráðherra segir verkefnið fram undan vera skýrt. „Við þurfum að ráðast í umbyltingu á kerfum í samfélaginu okkar en við þurfum að gera það þannig að það taki tillit til allra þjóðfélagshópa og tryggi að við getum öll tekið þátt.“

Málþinginu lýkur á pallborðsumræðum og ávarpi Drífu Snædal, forseta ASÍ, og fylgjast má með málþinginu í beinu streymi hér að neðan: 

mbl.is

Bloggað um fréttina