Fæstir treysti sér sjálfir í söluferlið

Skúli þarf annað hvort að sjá um allt saman sjálfur …
Skúli þarf annað hvort að sjá um allt saman sjálfur sem eigandi hússins eða fá til liðs við sig löggiltan fasteignasala. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekkert sem bannar einstaklingum að selja eignir sínar sjálfir þó það heyri til algerrar undantekningar að fólk geri það, enda er að býsna mörgu að hyggja í kringum allt ferlið í fasteignaviðskiptum,“ segir Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala.

Skúli Mogensen, fyrrverandi eigandi WOW air, hefur auglýst hús sitt að Hrólfsskálavör 2 á Seltjarnarnesi til sölu á vefsíðunni Ocean Villa Iceland sem tileinkuð er fasteigninni.

Grétar segir um langt ferli að ræða sem fæstir treysti sér í sjálfir. „Þetta er ekki bara auglýsingin heldur allt sem á eftir kemur, að taka á móti tilboðum, öll skjalagerð, veðflutningar og svo framvegis,“ segir Grétar og bætir við: 

„Og ef upp koma mistök í ferlinu hafa allir fasteignasalar starfsábyrgðartryggingu til að bæta fyrir tjón hvort sem er hjá kaupanda eða seljanda.“

Hafi enginn fasteignasali aðkomu að ferlinu þurfi þeir einfaldlega gera tjónið upp sjálfir.

Sjái um allt sjálfur eða fái til þess löggiltan fasteignasala

Aðspurður hvernig það virkaði ef Skúli fengi tilboð í fasteignina segir Grétar að hann þyrfti þá sjálfur að vinna alla þá samninga því fylgdu. „Eða láta löggiltan fasteignasala sjá um það. Hann mætti t.d. ekki láta lögmann eða endurskoðanda sjá um þetta fyrir sig, heldur verða menn að vera með löggildingu sem fasteignasalar til þess að sjá um slíkt.“

mbl.is