Arnór hélt við aðra gæs

Lokaáfanga við viðhald Blöndubrúar fer senn að ljúka, eða í …
Lokaáfanga við viðhald Blöndubrúar fer senn að ljúka, eða í lok þessa mánaðar. mbl.is/Jón Sigurðsson

Í dag eru 290 dagar liðnir af árinu og rétt rúmir tveir mánuðir þar til sól fer aftur að hækka á lofti. Haustið hefur verið okkur bæði fleygum og ófleygum fremur hagfellt í veðurfarslegu tilliti og gert vaxandi skammdegi bærilegra. Auðnutittlingarnir fljúga á milli birkigreina og næra sig á fræjum trjánna. Þrestirnir háma í sig fullþroskuð reyniberin og hrafninn fylgist með öllu saman ofan af ljósastaurum.

Grágæsirnar setja ætíð mikinn svip á bæinn frá aprílbyrjun til ágústloka, við mismikla hrifningu bæjarbúa. En þrátt fyrir mikinn gæsaskít á ýmsum gönguleiðum vekja gæsirnar alltaf mikla athygli hjá gestum og gangandi. Fyrir ári var grágæsargassi merkur með GPS-sendi og fékk nafnið Arnór. Fór hann til Skotlands sl. haust og hélt sig að mestu í nágrenni Dundee. Kom hann aftur í vor á Blönduós en hélt einhverra hluta vegna fljótlega með maka sínum að Holti á Ásum. Þar kom hann upp ungum á Laxá á Ásum en yfirgaf fjölskyldu sína þar og fór að halda við aðra gæs í Hrútey í Blöndu og kom upp með henni ungum.

Arnór var sem sagt staðinn að flökti milli gæsa og sögnin um það að gæsir væru í ævilöngum tryggðum virðist hafa glatað trúverðugleika sínum í A-Húnavatnssýslu. Í sumar fengu þrír gassar GPS-sendi; Jón, Jónas og nr. 22, og sendu tveir þeirra frá sér merki daglega. Gassinn Jóna féll fyrir höglum veiðimanns 5. september frammi í Langadal á slóðum „Möngu með svartan vanga“. Gassinn, sem ber númerið 22, hefur ekkert látið af sér vita en áðurnefndur Arnór og Jón gassi hafa haft samband reglulega og dvelja um þessar mundir frammi í Vatnsdal.

Spennandi verður að fylgjast með því hvort þessar gæsir komist fram hjá skyttum landsins og yfir hafið til Skotlands, hvar bíða þeirra enn fleiri skyttur.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »