Misnotkun fjármálakerfisins hvergi nefnd

Bjarni Benediktsson sat fyrir svörum á fundi efnahags- og viðskiptanefndar …
Bjarni Benediktsson sat fyrir svörum á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í þessu ferli hafa ekki komið fram neinar ábendingar þess efnis að fjármálakerfið sé misnotað í peningaþvættismálum,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um úttekt FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og veru Íslands á gráum lista.

Hann segir að í samstarfi hópsins sé mikil áhersla lögð á að fylgja vel skilgreindum reglum sem séu sem minnst háðar mati og að horfa þurfi á niðurstöðu úttektarinnar í því samhengi. 

„Þegar ráðgjafarráðið kemst að þessari niðurstöðu segja þeir að hér sé ekkert svigrúm til mats, annað hvort séu þessi tilteknu atriði í lagi eða ekki. Þegar maður skoðar þetta ofan í kjölinn og margir þessara þátta eru byggðir á heildarmati, hversu alvarlegt er það að eitt af þessum 300 atriðum sé í ólagi?“

Bjarni segir þó mikilvægt að vera meðvituð um það að á meðan hér þrífist glæpastarfsemi, t.d. fíkniefnainnflutningur, sé verið að reyna að koma undan peningum. „Og það er þess vegna sem ekki má slá slöku við.“

mbl.is