Segir trúverðugleika FATF fara minnkandi

Tom Keatinge er einkar harðorður í grein sinni um FATF.
Tom Keatinge er einkar harðorður í grein sinni um FATF. AFP

Tom Keatinge, yfirmaður fjárglæpamála hjá bresku þankaveitunni RUSI (Royal United Service Institiute) segir trúðverðugleika FATF fara minnkandi. Keatinge er einkar harðorður í garð samstarfshópsins í grein sinni og furðar hann sig meðal annars á því að Ísland hafi verið sett á gráan lista. 

„Undir þrjátíu ára leiðsögn FATF í alþjóðlegri baráttu gegn fjárglæpum hefur náðst eftirtektarverður árangur í málaflokknum. Þrátt fyrir það fer trúverðugleiki FATF stöðugt minnkandi. Fram að þessari nýjustu úttekt, þar sem Íslandi var bætt á gráan lista, hefur 39 aðildarríkjum FATF — aðallega auðug ríki — mistekist að ávíta önnur aðildarríki, þrátt fyrir afdrifarík mistök nokkurra ríkja,“ skrifar Keatinge. 

Tom Keatinge.
Tom Keatinge. Ljósmynd/RUSI

„Á svipaðan hátt hafa úttektirnar á ríkjunum orðið sífellt pólitískari,“ bætir hann við. 

Þá segir Keatinge úttektir FATF ekki endurspegla mikilvægi hvers og eins ríkis í alþjóðahagkerfinu. Segir hann minniháttar ágalla í Bretlandi hafa mun meiri áhrif heldur en meiriháttar ágalla í öðrum ríkjum, eins og til dæmis Úganda, en að úttektir FATF beri þess ekki merki.

Keatinge gagnrýnir einnig hve sjaldan úttektir á ríkjum eru gerðar. Þá segir hann einnig mikilvægt að FATF taki til greina hæfni og afkastagetu ríkja til að bregðast við tilmælum FATF. Segir hann þörf á meiri heilleika í úttektum á ríkjum í ljósi þess hve miklar afleiðingar úttektir FATF hafa fyrir ríki. 

mbl.is