Augljóst að dómurinn er fordæmisgefandi

Sigurður Örn Hilmarsson (t.h.), lögmaður Freyju Haraldsdóttur, fagnar niðurstöðu Hæstaréttar …
Sigurður Örn Hilmarsson (t.h.), lögmaður Freyju Haraldsdóttur, fagnar niðurstöðu Hæstaréttar en segir það synd að málið hafi þurft að fara svona langt og tekið fimm ár af ævi hennar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður Freyju Haraldsdóttur, segir niðurstöðu Hæstaréttar í máli hennar gegn Barnaverndarstofu sérstaklega ánægjulega. „Bæði fyrir Freyju sem og hygg ég annað fatlað fólk í landinu að réttindi þeirra séu viðurkennd fyrir æðsta dómstól landsins,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is. Dómurinn er fordæmisgefandi að hans mati. 

Hæstiréttur Íslands staðfesti í morgun dóm Landsréttar í máli Freyju gegn Barna­vernd­ar­stofu sem komst að því í mars að Freyju hafi verið mis­munað vegna fötl­un­ar. Fyrir fjórum árum hafnaði barnavernd umsókn Freyju um leyfi til þess að taka barn í varanlegt fóstur. 

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður hafnað kröfum Freyju um að fella úr gildi úr­sk­urð úr­sk­urðar­nefnd­ar vel­ferðar­mála frá 6. júní 2016 þar sem staðfest var ákvörðun Barna­vernd­ar­stofu frá  nóv­em­ber 2015 um synj­un á um­sókn Freyju um leyfi til þess að taka barn í fóst­ur.

„Það er að sjálfsögðu synd að málið hafi þurft að fara svona langt og tekið fimm ár af ævi hennar Freyju að standa á sínum rétti að vera ekki mismunað út af fötlun hennar,“ segir Sigurður og bæti við að sú niðurstaða og afstaða hafi í raun verið staðfest af Hæstarétti í dag. 

Freyja Haraldsdóttir í Hæstarétti í morgun.
Freyja Haraldsdóttir í Hæstarétti í morgun. mbl.is/Eggert

Sigurður segir augljóst að dómurinn sé fordæmisgefandi. „Hann er það og það er sérstaklega tekið fram í niðurstöðu dómsins að það er verið að gæta jafnræðisreglu og gæta að því að fólki sé ekki mismunað og þá sérstaklega fötluðu fólki í samræmi við markmið laga um málefni fatlaðs fólks.“ 

Freyja á nú rétt á hefðbundnu mats­ferli varðandi um­sókn sína um að verða fóst­ur­for­eldri. „Núna fer hún í hefðbundið ferli sem hún átti rétt á fyrir fimm árum síðan og ég vænti þess að það gangi eðlilega fyrir sig og að hún þurfi ekki á sérstakri lögmannsaðstoð að halda frekar en aðrir umsækjendur um að verða fósturforeldrar. En við erum reiðubúin að grípa inn í ef á þarf að halda,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert