Auðvelt að „týnast“ í fjölmennum skólum

Tryggja þarf mun betur en gert er í dag að …
Tryggja þarf mun betur en gert er í dag að nemendur á öllum skólastigum fái þann stuðning sem þeir þurfa vegna erfiðleika á sviði hegðunar, líðanar og félagsfærni mbl.is/Styrmir Kári

„Tryggja þarf mun betur en gert er í dag að nemendur á öllum skólastigum fái þann stuðning sem þeir þurfa vegna erfiðleika á sviði hegðunar, líðanar og félagsfærni, og að starfsfólk í skólum fái þann stuðning sem þarf til að sinna hegðun, líðan og samskiptum barna og ungmenna með farsælum hætti.“ Þetta kemur fram í niðurstöðum landskönnunnar á geðrækt, forvörnum og stuðningi við börn og ungmenni í skólastarfi á Íslandi.

Þetta er umfangsmesta athugunin sem gerð hefur verið hingað til á stöðu geðræktar í íslenskum skólum. Könnunin náði yfir breitt svið stefnu og starfshátta skóla á ólíkum skólastigum, umhverfis og aðstæðna, uppbyggingu þekkingar og færni meðal starfsfólks, skólatengsla, jafnréttis og þátttöku í skólastarfi, kennslu í félags- og tilfinningafærni, eflingar jákvæðrar hegðunar, mats og stuðnings í skólastarfi og samstarfs við foreldra og stofnanir um velfarnað barna og ungmenna.

Á öllum skólastigum mætti efla markvissa kennslu í félags- og tilfinningafærni, en sá þáttur kom best út í leikskólum. Almennt kom sá þátt sem sneri að tengslum við skóla og umhyggju fyrir börnum og ungmennum best út í könnun á öllum skólastigum en vinna þarf betur að jákvæðum skólatengslum á framhaldsskólastigi.   

Brýnt að efla samstarf við foreldra nemenda í framhaldsskólum

Framhaldsskólar standa leik-og grunnskólum talsvert að baki varðandi samstarf við foreldra. Í leik-og grunnskólum var þetta hlutfall um og yfir 70%. „Þá vekur áhyggjur að aðeins í tveimur af hverjum þremur framhaldsskólum var lögð áhersla á að hafa strax samband við foreldra ef áhyggjur vakna af velferð nemenda undir 18 ára aldri en þetta hlutfall var nánast 100% á fyrri skólastigum.“ Segir í skýrslunni. Bent er á að á framhaldsskólastigi sé mikilvægt sé að taka tengsl nemenda við skóla og samstarf við foreldra fastari tökum.

Bent er á að tengslakannanir séu vannýttar í framhaldsskólum en þær gætu nýst meðal annars í áætlanagerð til að hindra brotthvarf á framhaldsskólastigi. „Í ljósi þess að margir framhaldsskólar eru með fjölbrautarkerfi þar sem nemendur eru með ólíkum hópum í hverju fagi og auðvelt er að „týnast“ í fjölmennum skólum væri eflaust gagnlegt að finna leiðir til að nýta tengslakannanir betur í framhaldsskólum og fá yfirsýn yfir þann hluta nemenda sem hefur veik tengsl við samnemendur og/eða starfsfólk í skólanum.“ Þetta kemur fram í skýrslunni. 

Gildandi ákvæði í lögum og reglugerðum virðast ekki nægja til að tryggja að þeim sé fylgt eftir og komi til framkvæmda. 

„Þessi staða hlýtur að teljast alvarleg

Aðeins tæp 60% grunnskóla veita öllum nemendum, sem eiga erfitt með nám, hegðun eða aðra þætti sem hindra farsæla skólagöngu, einstaklingsmiðaða stuðningsáætlun þrátt fyrir gildandi reglugerð um réttindi nemenda til einstaklings miðaða námskrá. Þetta hlutfall er tæp 80% í leikskólum. 

Í grunnskólum var jafnframt lægsta hlutfall sérmenntaðra einstaklinga sem höfðu umsjón með framkvæmd og endurmati stuðningsáætlana og sinntu jafnframt handleiðslu til annars starfsfólks sem komu að málefnum nemandans. „Þessi staða hlýtur að teljast alvarleg í ljósi skólastefnu um menntun fyrir alla og réttindi nemenda til þess að komið sé til móts við þarfir þeirra í skólastarfi,“ segir í skýrslunni.  

Staðan var einnig slæm í grunnskólum þegar kom að snemmtækum og sívirkum úrræðum við nemendur vegna hegðunar-, félags- eða tilfinningalegra erfiðleika. Svarendur í 60-65% grunnskóla sögðu slík úrræði vera til staðar. Til samanburðar var þetta hlutfall yfir 80% í framhalds- og leikskólum. 

Misbrestur í leikskólum varðandi tilkynningar til barnaverndarnefndar

Leikskólarnir komu best út varðandi einstaklingsmiðaða stuðningsáætlun og snemmtækum úrræðum. Hins vegar var töluverður misbrestur á leikskólastigi, varðandi verkferla í tengslum við geðheilbrigðisvanda, vanrækslu og ofbeldi meðal barna og tilkynningarskyldu til barnaverndarnefndar. Í minna en helming leikskóla hafði verið skráð í verkferla sem allt starfsfólk þekkti um viðbrögð ef þessi vandi kæmi upp. Í einum af hverjum þremur leikskólum var farið árlega yfir verkferla og ábyrgð starfsfólks varðandi tilkynningar til barnaverndarnefndar.   

„Niðurstaða könnunarinnar undirstrikar mikilvægi þess að styrkja umgjörð, skipulag og innviði skólakerfisins til að sinna geðrækt, forvörum og stuðningi við nemendur með farsælum hætti.“ Segir í lokaorðum skýrslunnar.  

Hér er skýrslan í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert