„Kannski veit ég hvar tölvurnar eru“

Sindri Þór Stefánsson.
Sindri Þór Stefánsson. mbl.is/Eggert

Dularfulli alþjóðlegi fjárfestirinn Herra X var höfuðpaurinn í Bitcoin-málinu svonefnda. Þetta segir Sindri Þór Stefánsson, sem fékk fjögurra og hálfs árs dóm fyrir aðild sína að málinu, í viðtali við bandaríska tímaritið Vanity Fair. Hann segist „kannski vita“ hvar stolnu tölvurnar eru. 

„Þetta er stærsta rán Íslandssögunnar. Svo, ég býst við að þetta sé stærsta rán mitt líka,“ segir Sindri með röddu sem Mark Seal blaðamaður Vanity Fair lýsir sem „varfærnu urri“; hann sé greinilega á varðbergi gagnvart því að láta of mikið uppi.

„Ég var óþekkur strákur“

Í viðtalinu rekur Sindri ævi sína, hann segist hafa verið á leikskólaaldri þegar hann braust fyrst inn og þá hafi hann fyrst fundið adrenalínið streyma um æðarnar; eitthvað sem hann hafi verið að elta æ síðan. „Ég var óþekkur strákur,“ segir Sindri um barnæsku sína. „Öskrandi, gargandi, stelandi, bítandi.“

Hann segist síðan hafa neytt ýmissa fíkniefna er hann komst á unglingsár, um tvítugt ræktaði hann kannabis og á þeim tíma voru um 200 minni háttar afbrot á sakaskrá hans. Eftir að hafa afplánað tíu mánaða fangelsisvist sneri hann blaðinu við, varð allsgáður, kvæntist og útskrifaðist með háskólagráðu í tölvunarfræði. En honum gekk illa að framfleyta sér. „Ég þurfti meira,“ segir Sindri í viðtalinu.

Sindri Þór Stefánsson er í ítarlegu viðtali við bandaríska tímaritið …
Sindri Þór Stefánsson er í ítarlegu viðtali við bandaríska tímaritið Vanity Fair.

Trilljón dollara vélar

Lausnina á því var að finna í illa vörðum byggingum á fyrrverandi varnarliðssvæðinu, þar sem trilljón dollara vélar var að finna. „Mig langaði til að byrja að grafa eftir rafmynt. Það er svipað kannabisræktun. Allt  tengist; rafmagn, loft, hitastig og kælikerfi. Svo ég fór að grennslast fyrir á netinu,“ segir Sindri. 

Sumarið 2017 hafði dularfullur, hættulegur og alþjóðlegur fjárfestir, sem kallaði sig Herra X, samband við Sindra. „Til hvers að leggja út í kostnað við að grafa sjálfur eftir rafmynt þegar þú getur komist auðveldlega inn í þessi viðskipti með því að stela tölvum sem eru á þessum markaði?“ segir Sindri að Herra X hafi sagt. 

Hinn fullkomni glæpur

Í kjölfarið lofaði Herra X Sindra 15% af öllum hagnaði sem stolnu tölvurnar myndu skila í rafmyntargreftrinum, sem gætu verið um 1,2 milljónir Bandaríkjadollara. Sindri segist hafa séð þetta sem hinn fullkomna glæp. „Að stela vélum sem búa til peninga. Búa til peninga á meðan þú sefur.“

Sindri segist hafa sagt við sjálfan sig að ekki væri hægt að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara. „Ég var tilbúinn til að fara í fangelsi fyrir þetta. Þetta var tækifæri lífs míns.“

Vöðvinn, Pólverjinn, Krúttið og Haffi bleiki

Í kjölfarið setti Herra X saman hóp þjófa sem allir voru með viðurnefni. Í honum voru „Vöðvinn“, öðru nafni Matthías Jón Karlsson, „Pólverjinn“ sem var Pétur Stanislav og „Krúttið“ sem var viðurnefni Viktors Inga Jónassonar. Hafþór Logi Hlynsson var með viðurnefnið „Haffi bleiki“ og hópurinn var kallaður Föruneytið með tilvísun í Hringadróttinssögu.

Hópurinn braust síðan inn í fjögur gagnaver í Reykjanesbæ og Borgarnesi og stal þar um 550 tölvum.

Lögreglustjórinn trúir ekki á álfa

Í viðtalinu er einnig rætt við Ólaf Helga Kjartansson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, sem fór með rannsókn málsins. Þar er hann spurður um hvort hann trúi á tilvist Herra X. „Margir Íslendingar trúa á álfa og tröll,“ svarar Ólafur Helgi. „Ég er ekki einn af þeim.“

Fjallað er um flótta Sindra úr fangelsinu að Sogni og að hann hafi farið til Stokkhólms og verið þar í sömu flugvél og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem sat nokkrum sætaröðum fyrir framan hann. „Við töluðum ekkert saman,“ segir Sindri. „Ég horfði eins mikið niður og ég mögulega gat.“

„Sé Herra X til,“ skrifar blaðamaður Vanity Fair, „þá er hann í felum, rétt eins og tölvurnar 550. Hugsanlega eru tölvurnar nú að störfum við að grafa eftir rafmyntum fyrir þá sem stálu þeim.“ 

„Kannski hafa tölvurnar verið í gangi allan tímann,“ segir Sindri, „Kannski veit ég hvar þær eru. Kannski veit ég það, kannski veit ég það ekki.“

mbl.is