„Þarna var augljóslega saga“

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks. AFP

„Okkar aðkoma hófst síðastliðið haust þegar Jóhannes [Stefánsson] kom á minn fund og kynnti mér þann vilja sinn að opinbera þessi skjöl og stíga fram um leið sem uppljóstrari og bera vitni um sína aðild að málinu og umfang þess.“

Þetta segir Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, í samtali við mbl.is um afhjúpun Wikileaks, Kveiks og Stundarinnar á umsvifum Samherja í Namibíu. Wikileaks birti í gær yfir 30.000 skjöl tengd starfsemi Samherja í Namibíu, auk þess sem Stundin og Kveikur fjölluðu ítarlega um málið. Í umfjöllunum þeirra er Samherji m.a. sagður hafa greitt hundruð milljóna króna í mútur til einstaklinga tengdum Bernhard Easu, sjávarútvegsráðherra Namibíu, til að tryggja aðgang að fiskveiðikvóta í landinu. 

Í kjölfar afhjúpunarinnar hefur umræddur ráðherra, auk Sacky Shang­hala, dóms­málaráðherra Namibíu, sem einnig er bendlaður við málið, sagt af sér embætti. 

Fljótlega eftir fund Kristins og Jóhannesar, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Samherja í Namibíu, setti sá síðarnefndi sig í samband við lögregluyfirvöld og spillingarrannsóknarnefnd í Namibíu. „Það var þá þegar ljóst að þetta væri töluvert umfangsmikið og að það tæki tíma að vinna úr þessu, og að hans beiðni var ákveðið að gefa mönnum svigrúm til þess að koma þessari rannsókn vel á veg þarna ytra,“ segir Kristinn.

Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu.
Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu. Skjáskot/Kveikur

„Þetta var töluvert flókið, flóknir aflandsstrúktúrar og flókið efni og miklar viðbótarrannsóknir til að fara í. Það er í sjálfu sér gott að geta gefið það tækifæri að menn ynnu sitt verk af fagmennsku og ítarlega.“

„Eftir yfirlegu yfir þessum skjölum með fólki sem þekkti til verka kom strax í ljós að þarna var um mjög fréttnæma hluti að ræða og þar hófst þetta fjölmiðlasamstarf sem breikkaði síðan og stækkaði,“ segir Kristinn og á þar við samstarf Wikileaks, Ríkisútvarpsins, Stundarinnar og alþjóðlega fjölmiðilsins Al Jazeera, sem á þó enn eftir að birta sína umfjöllun um málið. 

Starfsemi Samherja í Namibíu hvergi getið á heimasíðu

Kristinn hafði samband við tengiliði sína hjá Al Jazeera Investigate, sem hefur höfuðstöðvar í London, til þess að kanna hvort þeim þætti efnið eiga erindi á alþjóðlegan markað. „Eftir yfirlegu var það niðurstaða þeirra að þetta væri efni sem þeir hefðu áhuga á, og kom margt til, m.a. þótt þetta væri ekki stórt í sniðum á alþjóðamælikvarða hvað fjárhæðir varðar og bliknar í samanburði við margt annað, þá er ákveðinn lykilrammi sem glyttir í í þessu efni sem hefur sést til í öðrum málum af svipuðum toga í samskiptum vestrænna stórfyrirtækja við Afríkuríki. Þarna var augljóslega saga.“

Þá segir Kristinn að annað sem hafi komið til þess að Al Jazeera hafði áhuga á málinu væri ógagnsæi sjávarútvegs á alþjóðavísu og hversu erfitt geti reynst afla upplýsinga um starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja. „Það hvílir ákveðin leynd yfir starfseminni einhverra hluta vegna og á grundvelli leyndar þrífst nú eitt og annað,“ segir Kristinn, og bendir í því samhengi á að á enskri heimasíðu Samherja, þar sem heimskort sé af starfsemi Samherja, sé hvergi að sjá að fyrirtækið hafi nokkra starfsemi í Namibíu eða við strendur hennar.

Á þessu korti af vef Samherja er ekki að sjá …
Á þessu korti af vef Samherja er ekki að sjá að fyrirtækið stundi starfsemi eða veiðar í eða við Namibíu. Kort/Samherji

 „Í þriðja lagi þá hefur Al Jazeera viljað fókusera á málefni Afríku sem svolítið hafa orðið út undan eða gleymst í umfjöllunum annarra alþjóðlegra fjölmiðla, eða vestrænna fjölmiðla yfir höfuð. Þess utan hafa þeir verið sérstaklega að taka fyrir sjávarútveg og sjóræningjaveiðar úti fyrir ströndum Afríku, svo þetta er ekki algjörlega fyrir utan þeirra ramma.“

Von er á umfjöllun Al Jazeera innan nokkurra vikna, en í tengslum við hana mun Wikileaks birta seinni skammt Samherjaskjalanna, til viðbótar við þau rúmlega 30.000 sem birt hafa verið, á vefsíðu sinni.

Skýringar Samherja haldi illa vatni

Spurður um viðbrögð Samherja við umfjöllun um starfsemi þeirra í Namibíu, þar sem skuldinni er skellt á uppljóstrarann, segir Kristinn þau forkastanleg. 

„Mér finnst það náttúrulega forkastanlegt að reyna að halda slíku fram í ljósi þess sem birtist í gögnunum og í vinnu þessara blaðamanna. Í fyrsta lagi kemur á daginn, þegar grannt er skoðað, að formlega séð er ekki hægt að segja að honum [Jóhannesi] hafi verið sagt upp, heldur hafi hann sjálfur hætt. Í annan stað þá hafði hann takmörkuð fjárráð og prókúru sem verkefnastjóri þarna í Namibíu, og eins og skjölin benda á þá eru allar stærri færslur að fara í gegnum aðalskrifstofuna og í gegnum aðalstjórn, ekki síst þegar um er að ræða millifærslur af fyrirtækjum Samherja, sem þeir fela á Kýpur, yfir á reikninga eins og þarna kemur fram og hefur verið fjallað um, í Dúbaí. Í þriðja lagi þá er býsna fráleitt þar sem, eins og fram kemur í Stundinni og í Kveik í gærkvöldi, að þessar millifærslur í gegnum þá reikningsfléttu frá Kýpur til Dúbaí standa allt fram á þetta ár. Þá er býsna einkennilegt að reyna að skella þeirri skuld á manninn sem hætti hjá fyrirtækinu tveimur og hálfu ári áður.“

Prófsteinn fyrir íslenskt samfélag og íslenska fjölmiðla

Kristinn segir að spennandi verði að fylgjast með viðbrögðum við málinu hérlendis. „Þetta verkefni sýnir nauðsyn þess að stunda góða, vandaða og yfirgripsmikla rannsóknarblaðamennsku. Ég held líka almennt séð að þessi birting og þessi umfjöllun sé ákveðinn prófsteinn og prófraun á íslenskt samfélag, og einnig á íslenska fjölmiðla, hvernig þeir matreiða og verka þessi mál, sérstaklega með tilliti til þess hvernig eignarhaldið er þar víða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert