Átthagafélagi Héraðsmanna bjargað á elleftu stundu

„Það er gaman að halda hópinn og það hefur líka …
„Það er gaman að halda hópinn og það hefur líka verið gaman fyrir mig að kynna reykvíska vini fyrir svona hittingum. Það er gaman að taka borgarbörnin með á þorrablót átthagafélagsins og gefa þeim þessa innsýn,“ segir Sigmar Vilhjálmsson, nýr stjórnarmaður í Átthagafélagi Héraðsmanna. mbl.is

Átthagafélag Héraðsmanna mun halda áfram störfum. Það stóð þó tæpt, því fyrir aðalfundi félagsins í Fella- og Hólakirkju í gærkvöldi lá tillaga um að slíta félaginu og ráðstafa eignum þess til Héraðsskjalasafnsins á Egilsstöðum. Hópur Héraðsmanna gat alls ekki hugsað sér að sjá félagið lagt niður, en félagið hefur staðið fyrir margvíslegu starfi brottfluttra Héraðsbúa á höfuðborgarsvæðinu í hartnær hálfa öld.

„Við æskuvinahópurinn, hinn svokallaði Sportklúbbur sem hefur haldið hópinn frá barnæsku, sáum að það átti að fara að leggja niður þetta félag. Okkur rann blóðið til skyldunnar og gátum ekki hugsað okkur að sjá þetta góða og gilda félag vera lagt niður,“ segir Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður og nýr stjórnarmaður félagsins, í samtali við mbl.is. Bróðir hans, Garðar Vilhjálmsson, er formaður í nýrri stjórn. Fyrri stjórn hafði setið í um það bil 20 ár og hafði gengið illa að fá nýtt fólk til starfa í félaginu.

Sigmar segir að í gærkvöldi hafi nýja stjórnin komið saman og lagt línurnar fyrir starfsemi félagsins, sem stofnað var upp úr 1970 og hefur á milli þrjú- og fjögurhundruð félaga. Stefnan er sú að halda áfram að halda árlegt þorrablót Héraðsbúa á höfuðborgarsvæðinu og bjóða auk þess upp á að minnsta kosti einn stóran viðburð sem tengist menningu Austurlands, jafnvel viðburð sem tengist „villibráð og því sem Austurland og Héraðið hefur upp á að bjóða,“ að sögn Sigmars.

Blót Héraðsmanna ekki „tískusýning“ eins og í Garðabæ

Stefna nýrrar stjórnar er að virkja félagið með því að fá ungt fólk af Héraði til þess að taka þátt í viðburðum og starfi félagsins. En hvaða máli skiptir það að halda svona í tengslin við heimahagana og þá sem þaðan eru, að mati Sigmars?

„Mér hefur alltaf þótt afar vænt um Egilsstaði og þann kúltúr sem er þar, því hann er klárlega frábrugðinn því sem við þekkjum í Reykjavík. Það er öðruvísi taktur, þetta er vinalegra samfélag og það þekkjast flestir,“ segir Sigmar.

Hann segir að félagsskap sem átthagafélagið megi líkja við félög Íslendinga erlendis. „Það er gaman að halda hópinn og það hefur líka verið gaman fyrir mig að kynna reykvíska vini fyrir svona hittingum. Það er gaman að taka borgarbörnin með á þorrablót átthagafélagsins og gefa þeim þessa innsýn,“ segir Sigmar og bætir við að hann telji mun meira varið í þorrablót Héraðsmanna en flest önnur á höfuðborgarsvæðinu. Það sé af gamla skólanum og þar sé sungið hástöfum.

„Ég ber þessi þorrablót ekkert saman við þessi sem þú ferð á, í Garðabæ eða annars staðar, sem eru meiri tískusýning en eitthvað annað,“ segir Sigmar. Átthagafélagið stefnir á að halda blót 1. febrúar og beinir Sigmar því til Héraðsbúa á suðvesturhorninu að taka daginn frá.

mbl.is