Skóflustunga tekin að hjúkrunarrýmum í Árborg

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar, munda ...
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar, munda skóflurnar. Ljósmynd/Aðsend

Heilbrigðisráðherra og bæjarstjóri Árborgar munduðu í dag skófluna og hófu jarðvinnu fyrir byggingu sextíu rýma hjúkrunarheimilis sem ætlað er fyrir íbúa í sveitarfélögum á Suðurlandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu þar sem segir að byggingarframkvæmdir hefjist af fullum krafti í desember.

Byggingin hefur verið áformuð frá 2015, en hönnunarsamkeppni var haldin 2017 og varð tillaga Urban arkitekta ehf. og LOOP architects aps. hlutskörpust.

Mun byggingin standa við hlið Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, við bakka Ölfusár. Hún verður rúmlega 4.000 fermetrar, hringlaga, á tveimur hæðum, með stórum og skjólgóðum garði í miðjunni. Ljósmynd/Aðsend

Hjúkrunarheimilið er samstarfsverkefni sveitarfélagsins Árborgar og heilbrigðisráðuneytisins og mun byggingin standa við hlið Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, við bakka Ölfusár á Selfossi. Hún verður rúmlega 4.000 fermetrar, hringlaga, á tveimur hæðum, með stórum og skjólgóðum garði í miðjunni.

Kostnaður við byggingu hússins verður alls 2,9 milljarðar króna.

mbl.is