Þreytt á einhliða loftslagsumræðu

Loftslagsmálin voru í brennidepli hjá RÚV í vikunni.
Loftslagsmálin voru í brennidepli hjá RÚV í vikunni. AFP

„Það hafa um 140 manns sem ég þekki ekki ýmist hringt í mig eða sent mér skilaboð frá því Borgarafundur Kastljóss var á þriðjudaginn. Ég hef samþykkt um 200 nýjar vinabeiðnir og fylgjendur. Auk þess hef ég séð fjölda skilaboða í kommentum á samfélagsmiðlum, sem ég get ekki talið saman,“ segir Erna Ýr Öldudóttir blaðamaður um umtalaðasta þátt vikunnar.

Mikil umræða hefur skapast um þáttinn sem má nálgast hér.

Af því tilefni ræddi mbl.is við Ernu Ýr um viðbrögðin.

Skoðanakúgun um loftslagsmálin

Hvað hefur fólkið sagt við þig?

„Þau vildu þakka mér fyrir að tala fyrir minni afstöðu í þættinum án þess að láta slá mig út af laginu, og eru mér sammála. Flestum finnst vera skoðanakúgun um loftslagsmálin, og að hópur fólks hafi „eignað sér umræðuna“. Einstaka hefur sagst vera ekki alveg sammála, en allir voru óánægðir með hvað þátturinn var hlutdrægur og hvað það var ójafnt að tefla 12 manns á móti tveimur. Margir sögðust ekki hafa getað horft á allan þáttinn út af þessu, og hvað skoðanir þeirra sem trúa á loftslagsvána voru einsleitar og lítið gagnrýndar. Þeim ofbauð, að eigin sögn, og sögðust hafa staðið upp frá sjónvarpinu og „labbað fram“.

Sumir kvörtuðu yfir því hvernig þáttastjórnendur leyfðu sumum oft ekki að klára nema hálfa setningu, þannig að lítið af rökræðu eða gagnlegum upplýsingum hafi fengið að koma fram. Á meðan hafi aðrir, sem lítið höfðu til málanna að leggja, fengið að tala óáreittir. Flestir kvörtuðu yfir ókurteisi í garð minn og Magnúsar Jónssonar. Margir kvörtuðu yfir að stjórnmálamenn hafi fengið að kynna sjálfa sig og sín mál á auglýstum borgarafundi. Einnig heyrði ég óánægju með á hvaða nótum Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir fékk, nánast ótrufluð, að tala til umhverfisráðherra og Magnúsar Jónssonar.“

Höfðu samband að utan

Erna Ýr Öldudóttir blaðamaður.
Erna Ýr Öldudóttir blaðamaður.

 

Hafa viðbrögðin komið þér á óvart?

„Já, mig grunaði ekki að svona margir væru mér sammála. Jafnframt kom mér á óvart hvað margir eru vel upplýstir. Margir af þeim sem höfðu samband eru fræðimenn eða fólk sem vinnur við tæknistörf, en jafnframt vel lesnir bændur sem segjast þekkja umhverfi sitt vel. Einstaka Íslendingur sem býr erlendis hafði samband, og var hissa þar sem umræðan um loftslagsmál erlendis hefur ekki þetta mikla vægi og er ekki á þessum nótum.“

Fólk sætti sig við kreppuástand

Gætti RÚV hlutleysis í þættinum?

„Ég get ekki sagt það. Meirihluti þeirra sem komu í pallborðið var fólk sem hefur hagsmuni af því að keyra loftslagsmálin upp sem vandamál og sannfæra fólk um að hætta sé á ferðum. Einu lausnirnar sem það boðaði voru eftirlit, skattheimta og önnur ríkisafskipti, auk krafna um að fólk venji sig á að lifa eins og í einhvers konar kreppuástandi framvegis.

Þáttastjórnendur fullyrtu að loftslagsváin væri staðreynd og fleira í þeim dúr, þótt það sé aðeins tilgáta, studd með spálíkönum sem aldrei hafa getað spáð rétt fyrir um hitastig. Erlendur stjórnmálamaður fékk innskot þar sem hann krafðist þess að loftslagsmál yrðu kosningamál á Íslandi. Stjórnmálamenn fengu óáreittir að auglýsa sjálfa sig, fyrirætlanir sínar og stefnumál. Þátturinn var auglýstur sem borgarafundur án þess að vera það í raun m.v. fjölda stjórnmálamanna og þekktra einstaklinga af vinstri vængnum.“

Ítrekað gripið fram í

Erna Ýr í þættinum umtalaða.
Erna Ýr í þættinum umtalaða. Ljósmynd/Skjáskot

 

Komu stjórnendur þáttarins, Einar Þorsteinsson og Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, vel fram við þig?

„Já, nema ekki í þættinum sjálfum. Það var endurtekið gripið fram í fyrir mér og ég fékk ekki að klára setningar. Ég er blaðamaður og var kynnt sem slík, en ég var spurð hvort ég „semji“ fréttir. Ég var sú eina í þættinum sem var spurð að því hvaðan ég hefði upplýsingar um það sem ég var að tala um — hvort ég hefði bara „gúglað“ þær af netinu. Ég var sú eina í mínu pallborði sem fékk ekki að svara spurningum úr sal, og fékk að heyra að ég hefði þegar fengið að tala of mikið — þegar ég bað um að fá að svara eins og hinir. Samt var ég aðeins önnur af tveimur efasemdarmönnum í 14 manna pallborði. Engin tilraun var gerð til að stoppa aðra meðlimi pallborðsins í að uppnefna mig og Magnús „afneitunarsinna“ eða afvegaleiða umræðuna þegar ég var að tala. Ég fékk á tilfinninguna að ég og Magnús hefðum verið fengin þarna inn í annarlegum tilgangi — en við höfum bæði birt efasemdir okkar um loftslagsvandann opinberlega.“

Hvað finnst þér þessi vinnubrögð segja um RÚV?

„Ég myndi gefa Ríkisútvarpinu falleinkunn. Mér leið svolítið eins og ég væri stödd í útsendingu hjá sértrúarsöfnuði — en ekki í þætti þar sem að ræða á málin hlutlaust, málefnalega og af alvöru.“

Reynt að hræða fólkið

Hvers vegna telurðu, í stuttu máli, að umræðan um loftslagsmál sé á villigötum?

„Vegna þess að það er stöðugt verið að flytja fólki lélegar, áróðurskenndar og jafnvel rangar upplýsingar um loftslagsmál, og reyna að hræða það til að samþykkja eftirlit, skatta og gjöld vegna vandamáls sem óvíst er að sé raunverulega til staðar.

Einnig hefur verið mjög lítil umræða um efnahagshlið loftslagsmálanna. Hvert eru peningarnir okkar að fara, hvað á að gera við þá og hvaða áhrif hafa takmarkanir og gjöld á efnahag fólks? Gengið hefur verið svo hart fram í að sannfæra fólk, að börn fá ekki lengur að vera í friði. Ýmist eru þau notuð í loftslagsumræðunni, eða stunduð innræting í skólakerfinu og með sýningu barnaefnis í sjónvarpi. Það gerir skynsamlega og yfirvegaða umræðu enn þá erfiðari — vegna þess að börn eru viðkvæm og hafa ekki þekkingu, yfirsýn eða þroska til að takast á við jafn viðamikið og flókið málefni, þar sem hart er barist um peninga og völd á opinberum vettvangi,“ segir Erna Ýr.

mbl.is

Bloggað um fréttina