„Lýðræði ekki auðræði“

Frá mótmælafundinum á Austurvelli í dag.
Frá mótmælafundinum á Austurvelli í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölmennt var á mótmælafundi sem haldinn var á Austurvelli í dag. Ljóst var að mikil reiði væri á meðal mótmælenda vegna Samherjamálsins svokallaða, en á meðal krafna mótmælenda var að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segði af sér. Katrín Oddsdóttir fundarstjóri sagði um fjögur þúsund manns á fundinum.

Stjórn­ar­skrár­fé­lagið, Efl­ing stétt­ar­fé­lag, Öryrkja­banda­lagið, Sam­tök kvenna um nýja stjórn­ar­skrá, Gegn­sæi, sam­tök gegn spill­ingu, og hóp­ur al­mennra borg­ara og fé­laga­sam­taka stóðu að baki fundinum. Ákall eftir nýrri stjórnarskrá var áberandi í ávörpum ræðumanna. Nokkrir þeirra mótmælenda sem blaðamaður mbl.is ræddi við sögðu að þjóðin krefjist nú þeirrar stjórnarskrár sem samþykkt var í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 og að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir ætti að segja af sér að öðrum kosti.

Kröfur mótmælenda voru þríþættar en auk þess sem þess var krafist að sjávarútvegsráðherra segði af sér kröfðust mótmælendur þess í öðru lagi að Alþingi lög­festi nýja og end­ur­skoðaða stjórn­ar­skrá og í þriðja lagi að arður af nýt­ingu sam­eig­in­legra auðlinda lands­manna renni í sjóði al­menn­ings.

Hljómsveitin HATARI tróð upp í lok mótmælafundarins.
Hljómsveitin HATARI tróð upp í lok mótmælafundarins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sendi skýr skilaboð með ræðu sinni, en auk hennar ávörpuðu Atli Þór Fann­dal blaðamaður, Þórður Már Jóns­son lögmaður og Auður Anna Magnús­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Land­vernd­ar, fundargesti.

„Kæru félagar, kæra fólk. Þetta er slagur, slagur um grundvallargerð samfélagsins. Slagur um hver fær að reikna og hvaða formúlur eru notaðar. Slagur um það fyrir hverja er stjórnað. Slagur um það hverju megi fórna; lífsgæðum fjöldans fyrir græðgi fárra eða græðgi fárra fyrir lífsgæði fjöldans,“ sagði Sólveig í ræðu sinni.

„Lýðræði ekki auðræði. Við sættum okkur ekki við að niðurstaða hins fjárhagslega útreiknings sé að sífellt meira af auðæfum samfélagsins renni til nokkurra manna og afkomenda þeirra.

Sólveig Anna Jónsdóttir á mótmælafundinum á Austurvelli.
Sólveig Anna Jónsdóttir á mótmælafundinum á Austurvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Lýðræði ekki auðræði. Við sættum okkur ekki við að tugum milljarða sé stolið úr samfélaginu á hverju ári og þeir sendir í skattaskjól svo að fólk með skerta siðferðiskennd geti haldið áfram að næra peningablætið sitt. Við sættum okkur ekki við áframhaldandi yfirráð auðvaldsins yfir tilveru okkar og barnanna okkar,“ sagði Sólveig við mikinn fögnuð viðstaddra.

„Kæru félagar, kæra fólk. 1.534 félagsmenn Eflingar, verkafólk, þurfa að vinna í heilt ár, fulla vinnu, til að fá jafn mikið og einn maður, Þorsteinn Már, fékk á einu ári. Einn maður, einn maður, skiptir meira máli en allar þessar vinnandi hendur, allar þessar stritandi hendur vinnuaflsins sem búa til arðinn, en eiga svo að sætta sig við að fá aðeins úthlutað brauðmolum af hlaðborðinu,“ sagði Sólveig. 

Katrín Oddsdóttir fundarstjóri á mótmælafundinum í dag.
Katrín Oddsdóttir fundarstjóri á mótmælafundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eiga sætta sig við að mæta aðeins á nokkurra ára fresti til þess að sníkja auðmjúk nokkra þúsundkalla í viðbót í samningaviðræðum við algjörlega forhert fólk. „Vinsamlegast sjáið þið nú hvernig við buktum okkur og beygjum. Vinsamlegast mætti ég fá aðeins meira?“ Lýðræði ekki auðræði, ég hafna þessum leikreglum. Ég hafna því að þetta sé niðurstaðan í samfélaginu okkar. Ég hafna öllu þessu mannfjandsamlega og fáránlega bulli á hverjum einasta degi allan ársins hring. Kæru félagar, ég er glöð að fá að hafna með ykkur hér, hátt og snjallt, yfirráðum auðvaldsins yfir tilveru okkar, yfir samfélaginu okkar,“ sagði Sólveig í lok ræðu sinnar og uppskar mikið lófatak. 

mbl.is

Bloggað um fréttina