Tölum ekki um nýkommúnista

Sjón fer í ferðalag með manneskjunni í nýjustu skáldsögu sinni.
Sjón fer í ferðalag með manneskjunni í nýjustu skáldsögu sinni. Árni Sæberg

„Seinni heimsstyrjöldin leiddi til hrikalegra ofbeldisverka, eins og við þekkjum. Eigi að síður vil ég svara þessu þannig að nasisminn hafi aldrei farið; það hefur bara verið misdjúpt á honum,“ segir Sjón en nýjasta skáldsaga hans, Korngult hár, grá augu, fjallar um hreyfingu nýnasista á Íslandi á árunum í kringum 1960. 

„Og af hverju hefði hann svo sem átt að fara? Ekki fór kommúnisminn og ekki tölum við um nýkommúnista í samtímanum. Þessi þjóðernishreyfing, sem ég fjalla um í bókinni, sprettur upp um hálfum áratug eftir stríðið en þegar maður skoðar það þá sér maður að eldri þjóðernisfasistar voru í bakgrunninum; reiðubúnir að leggja baráttunni lið með fjárhagslegri aðstoð og upplýsingagjöf eða með því að koma á samböndum við skoðanasystkini í útlöndum. Er þetta ekki saga mannsandans? Hugmyndir lifa og taka sig upp aftur. Og það eina sem við getum lært af sögunni er að við getum ekki lært af sögunni!“ 

Sjón hefur fylgst lengi með nýnasistahreyfingum í heiminum. „Raunar er fyrsta sjónvarpsminning mín tengd nasistum; móðir mín keypti fyrsta sjónvarpið á sjöunda áratugnum og þegar kveikt var á kassanum þá blöstu við stormsveitarmenn í gæsagangi á götum Vínarborgar.“

Uppfullt af rómantík

„Fyrir um þrjátíu árum hitti ég svo fólk úr þessari deild í London. Það samtal var mjög áhugavert enda var þetta fólk uppfullt af rómantík gagnvart Íslandi og hinum norræna kynstofni, eins og gengur. Þarna kom einnig í ljós að breskir nýnasistar höfðu verið í sambandi við íslensku hreyfinguna í kringum 1960 sem undirstrikar hversu vel hún var tengd. Eflaust vekur það einhverjum hroll að félagatal íslensku hreyfingarinnar sé mjög líklega til í gagnasöfnum sænskra og enskra nýnasistafélaga.“

Að mati Sjóns höfum við gott af því að skoða sögu sem þessa út frá sjónarhorni eldhugans og hugsjónamannsins, burtséð frá hugmyndafræðinni sem slíkri. Brenniviðurinn í hugsjónaeldinn geti verið misjafn en eldurinn eigi að síður alltaf jafn heitur. „Demoniseringin á nýnasistunum kemur okkur ekkert áfram; í henni felst afmennskunin. Við viljum ekki vita af þessu fólki enda er um að ræða hugmyndir sem smætta veruleikann. Í skáldsögunni kemur ekkert annað til greina en að fara í ferðalagið með manneskjunni.“

Sjón segir það alltaf hafa höfðað til sín hvernig manneskjan reynir að fóta sig í heiminum í gegnum hugmyndafræðina. „Ég þekki þetta sjálfur í gegnum súrrealismann sem ég hreifst af ungur að árum. Eldri menn reyndust mér þá vel og studdu dyggilega við bakið á mér, bæði Alfreð Flóki og Jóhann Hjálmarsson. Alfreð Flóki kom meira að segja á mig lista yfir súrrealista úti í heimi og allt í einu vorum við Medúsumenn í Breiðholtinu farnir að skrifast á við þá. Sjálfur hélt Flóki sig til hlés, erfitt var að fá hann til að þiggja boð eða skrifast á við einhverja, en hann fann að þetta gæti gagnast mér. Þarna áttaði maður sig á því að við Íslendingar erum ekkert svo langt frá öllu og boðskiptaleiðirnar eru alltaf opnar og sama grunnteikningin í gangi, hvort sem það eru sendibréf eða internetið. En auðvitað ferðast upplýsingar hraðar í dag og aðgengið er betra. Bæði til góðs og ills, eins og alltaf. Þessi reynsla kom mér tvímælalaust til góða meðan ég var að skrifa þessa bók.“

Nánar er rætt við Sjón í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert