Útlit fyrir 12 tíma verkfall á morgun

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/​Hari

Fundi samninganefnda Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins lauk um eittleytið og hafði þá staðið yfir í um tvær klukkustundir. Engin niðurstaða fékkst á fundinum og stefnir því í verkfallsaðgerðir á morgun, föstudag. 

„Við erum sammála um að vera ósammála,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður BÍ, í samtali við mbl.is.  

Félagar í Blaðamannafélaginu felldu á þriðjudag ný­gerðan kjara­samn­ing fé­lags­ins við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins. Næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður á þriðjudag.

„Við erum búin að fara með kjarasamning sem var hafnað og það liggur fyrir að við munum ekki leggja sama samninginn tvisvar fyrir fólk,“ segir Hjálmar. 

Verkfallsaðgerðirnar á morgun, sem eru þær þriðju sem boðað hefur verið til í nóvember, standa yfir í 12 klukkustundir, frá klukkan 10-22 og ná til blaðamanna, ljósmyndara og myndatökumanna hjá Árvakri, Sýn, Torgi og Ríkisútvarpinu, sem eru félagar í BÍ.

Tekið skal fram að flest­ir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert