Andlát: Guðrún Jónsdóttir

Látin er í Reykjavík Guðrún Jónsdóttir geðlæknir, 93 ára að aldri. Guðrún fæddist 6. október 1926 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Júníusson stýrimaður frá Syðra-Seli á Stokkseyri og Jónína Jónsdóttir húsmóðir frá Mundakoti á Eyrarbakka. Bróðir Guðrúnar var Jón Atli vélstjóri, kvæntur Súsönnu Halldórsdóttur. Þau voru barnlaus.

Guðrún lauk stúdentsprófi með ágætiseinkunn frá MR 1946 og var dúx skólans. Hún hóf haustið 1946 nám í ensku og frönsku í HÍ en færði sig yfir í læknisfræði. Guðrún lauk læknaprófi í ársbyrjun 1955 og fékk almennt lækningaleyfi 1958. Árin 1958-59 og 1965-69 kenndi hún líffæra- og lífeðlisfræði við Hjúkrunarskóla Íslands. Veturinn 1969-70 hóf Guðrún sérnám í geðlækningum í Bristol í Englandi, hélt því áfram hér heima og fékk íslenskt sérfræðileyfi í geðlækningum í janúar 1976, fyrst kvenna. Guðrún skrifaði sérfræðiritgerð um sjálfsvíg á Íslandi 1962-1973. Þá hafði nánast ekkert verið ritað um sjálfsvíg hér á landi. Guðrún var sérfræðingur í geðlækningum á geðdeild Borgarspítalans frá 1976 til starfsloka sumarið 1996.

Guðrún hélt fjölmarga fyrirlestra um sjálfsvíg bæði hér á landi og erlendis. Hún var gjaldkeri Geðlæknafélags Íslands 1976-78, sat í Barnaverndarráði Íslands 1974-82 og ritaði og ræddi í fjölmiðlum um geðheilsu og kristna trú enda Biblíulestur og trúmál henni ætíð mjög hugleikin. Guðrún skírðist til safnaðar Sjöunda dags aðventista um miðjan aldur og var virk í safnaðarstarfi meðan heilsan leyfði.

Guðrún giftist 19. ágúst 1949 eftirlifandi eiginmanni sínum, Páli Sigurðssyni, f. 9. nóvember 1925, bæklunarlækni og fv. ráðuneytisstjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Börn Guðrúnar og Páls eru tvíburarnir Jónína tannlæknir og Ingibjörg lyfjafræðingur, f. 14. desember 1949, Dögg hæstaréttarlögmaður, f. 2. ágúst 1956, og tvíburarnir dr. Sigurður Páll geðlæknir og Jón Rúnar hæstaréttarlögmaður, f. 15. nóvember 1960. Barnabörnin eru níu og barnabarnabörnin eru 17.

Útför Guðrúnar verður gerð frá Neskirkju föstudaginn 6. desember nk. og hefst athöfnin kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »