Farið á svig við góða stjórnsýsluhætti

Dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur segir að verið sé að fara …
Dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur segir að verið sé að fara á svig við góða stjórnsýsluhætti með því að auglýsa ekki embætti ráðuneytisstjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tilgangurinn með því að auglýsa er auðvitað fyrst og fremst gagnsæið,“ segir Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur í samtali við mbl.is vegna skipunar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á Bryndísi Hlöðversdóttur í embætti ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins án auglýsingar, en Bryndís hefur gegnt embætti ríkissáttasemjara undanfarin rúm fjögur ár. Var hún færð á milli embætta á grundvelli heimildar til þess í lögum.

Haukur bendir á að þetta sé í annað skiptið á skömmum tíma sem ráðuneytisstjóri sé skipaður án þess að embættið sé auglýst. Þannig hafi Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra skipað Gissur Pétursson ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu á þann hátt en hann var áður forstjóri Vinnumálastofnunar. Við það tilefni var skipað í tvö önnur embætti án þess að þau væru auglýst. Þannig var annars vegar skipað í embætti forstjóra Vinnueftirlitsins og hins vegar skrifstofustjóra fjárlaga í félagsmálaráðuneytinu.

Segir svínað á meginreglunni um auglýsingar

„Þarna er verið að fara á svig við góða stjórnsýsluhætti. Það er bara einfaldlega þannig. Það er verið að svína á meginreglunni um auglýsingar og undanþágan um að flytja fólk á milli starfa felur auðvitað í sér að það séu til staðar einhverjar sérstakar aðstæður og helst ætti það að vera tímabundið. Þannig að það er í raun verið að misnota þá heimild til þess að þurfa ekki að auglýsa starfið,“ segir Haukur.

Forsætisráðuneytið.
Forsætisráðuneytið. mbl.is

Bryndís verður þriðji ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins í röð sem skipaður er án þess að embættið sé auglýst. Þannig skipaði Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, Bolla Þór Bollason ráðuneytisstjóra 2004 án auglýsingar og var hann fluttur úr fjármálaráðuneytinu. Þá var Ragnhildur Arnljótsdóttir, fráfarandi ráðuneytisstjóri, skipuð án auglýsingar af Jóhönnu Sigurðardóttur, sem þá var forsætisráðherra, árið 2009. Ragnhildur hafði áður verið ráðuneytisstjóri Jóhönnu í félagsmálaráðuneytinu.

„Það þyrfti í rauninni að þrengja þessa heimild til þess að flytja fólk til í starfi í ljósi þess að ekki er lengur um að ræða æviráðningu. Heimildin vísar til þess þegar æviráðning var til staðar,“ segir Haukur en embættismenn eru alla jafna skipaðir í dag til fimm ára í senn. Til þess að beita heimildinni þurfi rökstuðning og einhverjar sérstakar málefnalegar ástæður þurfi að vera fyrir hendi. Til dæmis sérþekking eða sérstakur trúnaður. Hann bendir enn fremur á að heimildin opni á þann möguleika að teygja á skipunartíma embættismanna með því að flytja þá í annað embætti þegar fyrri skipunartíma er að ljúka.

Virðist ekki þurfa að auglýsa æðstu stöður

„Það er þekkt erlendis að ráðherrar taki með sér einhverja trúnaðarmenn sem síðan hverfa aftur í til fyrri starfa eftir að ráðherrann hættir. En þessi heimild til þess að flytja fólk á milli starfa er í þessum tilfellum ekki notuð með þeim hætti heldur til þess að flytja embættismenn í varanlegt starf á nýja staðnum,“ segir Haukur. Þessi mál hafi talsvert verið rædd á meðal stjórnsýslufræðinga og stærra spurningamerki verið sett af þeim við flutningsheimildina en áður í ljósi þess hvernig hún hafi verið nýtt á liðnum árum.

„Það virðist í seinni tíð ekki þurfa að auglýsa æðstu stöður Stjórnarráðsins,“ segir Haukur. Aðspurður segir hann það vitanlega svo að eftir því sem embætti séu valdameiri og ofar í stjórnarkerfinu sé þörfin fyrir gagnsæi meira. „Þó við látum ekki almenning kjósa embættismenn er engu að síður ákveðin ábyrgðarkeðja til staðar og almenningi kemur við hver fer í hvaða starf sem aftur er auðvitað ástæðan fyrir meginreglunni um auglýsingar.“

Félagsmálaráðuneytið.
Félagsmálaráðuneytið. Ljósmynd/Ríkiseignir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert