Mikið foktjón á hafnarsvæðinu í Eyjum

Björgunarfélag Vestmannaeyja hefur sinnt rúmlega 100 útköllum síðan í gær.
Björgunarfélag Vestmannaeyja hefur sinnt rúmlega 100 útköllum síðan í gær. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Mikið tjón varð á fiskimjölsverksmiðju Ísfélags Vestmannaeyja í aftakaveðrinu í gærkvöldi og nótt þegar klæðning fór af norðurhlið hússins. Klæðning fór sömuleiðis af salthúsinu hjá Vinnslustöðinni.

„Það er ennþá bálhvasst hjá okkur og fólk er varað við því að vera á ferðinni,“ segir Tryggvi Kr. Ólafsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, í samtali við mbl.is. Skólahaldi hefur verið frestað til klukkan 10 og fyrstu tvær ferðir Herjólfs falla niður en athuga á með ferð frá Vestmannaeyjum klukkan 12. „Það á að lægja upp úr hádegi, annars getur þessi norðanátt hangið ansi lengi yfir okkur, það er reynslan,“ segir Tryggvi. 

Yfir 100 útköll á hálfum sólarhring

Björgunarfélag Vestmannaeyja hefur sinnt rúmlega 100 útköllum frá því um fjögurleytið í gær og eru viðbragðsaðilar enn að störfum að sögn Arnórs Arnórssonar, formanns Björgunarfélags Vestmannaeyja. „En ég hef fulla trú á því að þetta fari að klárast,“ segir hann. Um 40 manns hafa sinnt útköllunum sem eru fyrst og fremst vegna foktjóns á hafnarsvæðinu. 

„Það var ein trilla sem fékk mikinn sjó inn á sig sem við dældum upp úr. En þetta er búið að vera ótrúlega rólegt þar miðað við veður,“ segir Arnór. 

Meðalvindur við Stórhöfða fór mest upp í 40 metra á sekúndu og hviður allt upp í 52 metra á sekúndu í gærkvöldi. Tryggvi segir að þótt allt hafi farið vel og engin slys orðið á fólki hafi veðrið verið verra en búist var við fyrirfram. „Þetta  var svolítill hvellur.“

Um 35-40 manns voru að störfum hjá Björgunarfélagi Vestmannaeyja í …
Um 35-40 manns voru að störfum hjá Björgunarfélagi Vestmannaeyja í gærkvöld og nótt. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert