Að síðan á þriðjudag og fleiri verkefni fram undan

Guðmundur Sigfússon, starfsmaður Rarik á Hvammstanga, var í forsvari fyrir …
Guðmundur Sigfússon, starfsmaður Rarik á Hvammstanga, var í forsvari fyrir vinnuhóp sem hefur unnið að því að hreinsa línur og spennivirki í Hrútafirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir stuttu var hluta Hrútafjarðarlínu slegið inn, en hún hafði verið úti frá því á þriðjudaginn þegar mesta óveðrið gekk yfir Norðvesturland. Guðmundur Sigfússon hefur stýrt flokki manna frá Rarik sem hefur nú í tæplega 40 klukkustundir barist við að koma rafmagni aftur á, en hann segir að enn sé mikil vinna fram undan.

Þegar blaðamaður mbl.is hitti á Guðmund og vinnuhópinn voru þeir við spennivirkið í Hrútatungu, við botn Hrútafjarðar. Þar hefur verið unnið við að hreinsa spennivirkið frá því í gærmorgun, en vegna gríðarlegrar seltu sem barst af hafi utan á spennivirkið, sem er í rúmlega kílómetra fjarlægð frá sjó, sló því út. Þá hefur hópurinn einnig unnið að því að þrífa línurnar, en Guðmundur segir að aðalmálið hafi hins vegar verið spennivirkið. Enn snarkar mikið í spennivirkinu vegna seltunnar og segir Guðmundur að í myrkri myndi líklegast sjást neista á milli.

Verkefnin hófust strax aðfaranótt miðvikudags, en Guðmundur segir að þeir hafi farið út þá um kvöldið, en ekki var stætt vegna veðurs að fara út fyrr. Síðan þá hafi þeir verið að.

Þrátt fyrir langa törn og einhverja þreytu bar hópurinn sig vel og segir Guðmundur að það sé alls ekki svo að verið sé að klára vinnuna núna, þótt línan sé að hluta til komin inn. Á eftir verður tekin ákvörðun um hvort hópurinn haldi út á Vatnsnes, en þar er heil álma í 19 kílóvolta línu brotin niður. Hann tekur þó fram að ekki sé um jafn stórt verkefni að ræða og við Dalvík þar sem 20 stæður í stærri línu hafa brotnað.

Spurður hvort þeir ætli ekki að taka sér einhverja hvíld milli verkefna segir Guðmundur að staðan sé enn slæm og aðalatriðið sé að koma rafmagninu á. „Fólk er búið að vera rafmagnslaust í tvo sólarhringa,“ segir hann.

Guðmundur hefur staðið vaktina hjá Rarik í þó nokkur ár og spurður hvort hann muni eftir svipuðum aðstæðum segir hann svo ekki vera. „Þetta er náttúrulega mesta skot sem við höfum fengið nokkurn tímann, þetta var bara kaos, það er ekkert flókið.“

Þegar þetta er skrifað var hópur á leið frá Hvammstanga út á Vatnsnes þar sem meta á skemmdirnar og búist er við að vinnuhópur haldi þangað í kjölfarið og hefjist handa við viðgerðir.

Það snarkaði gríðarlega í spennivirkinu vegna seltu þótt það hefði …
Það snarkaði gríðarlega í spennivirkinu vegna seltu þótt það hefði verið þrifið. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert