Maður féll í Núpá

TF-LIF var kölluð út á fyrsta forgangi.
TF-LIF var kölluð út á fyrsta forgangi. mbl.is/Árni Sæberg

Annar tveggja manna sem unnu við stíflu í Núpá í Sölvadal í Eyjafirði féll í ána á tíunda tímanum í kvöld, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Maðurinn er ófundinn.

Í tilkynningu segir að krapagusa hafi hrifið manninn með sér og var allt tiltækt björgunarlið sent á vettvang ásamt lögreglumönnum og lækni, auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til. 

Þyrlan er rétt ókomin á vettvang, en um borð í henni eru fjórir kafarar sem munu hjálpa til við leit.

Björgunarsveitarfólk leitar nú meðfram ánni og verið er að ræða við aðstandendur mannsins.

Erfiðlega gekk að komast á vettvang vegna ófærðar og þurfti snjóruðningstæki að fara á undan, auk þess sem erfiðlega gekk að ná aftur sambandi við þann sem tilkynnti um slysið og var því lítið vitað um aðstæður.

Björgunarsveitir voru fyrstar á staðinn á tólfta tímanum í kvöld og hófu þær þá upplýsingaöflun og leit.

mbl.is