Mjög brothætt ástand

Unnið við hreinsun á Dalvíkurlínu.
Unnið við hreinsun á Dalvíkurlínu. Ljósmynd/Landsnet

Enn er víða rafmagnslaust á Norður- og Norðausturlandi og ástandið mjög brothætt samkvæmt upplýsingum frá Rarik á Norðurlandi. Starfsfólk Rarik hefur staðið vaktina undanfarna sólarhringa við að reyna að koma á rafmagni. Stundum hefur það tekist en ekki alltaf.

Erfitt er að ná yfirsýn yfir stöðuna þar sem rafmagnið kemur og fer á sumum stöðum. Til að mynda tókst að koma Hrútatungu inn snemma í morgun og var því talið að rafmagn myndi komast á í kjölfarið í Vestur-Húnavatnssýslu en vegna seltu og ísingar á línum hefur ekki gengið að koma straumi áfram. Því eru íbúar á Hvammstanga og nágrenni enn án rafmagns. 

Á Tröllaskaga er víða rafmagnslaust eða rafmagn skammtað en um tíma í nótt tókst að koma á rafmagni á Siglufirði og hluta Ólafsfjarðar en það var skammgóður vermir því það datt út að nýju.

Rafmagnslaust er í Aðaldal, Bárðardal, Reykjadal, Laugum og nágrenni vegna rekstrarvandamála í Laxárvirkjun.

Rafmagnslaust er enn á Tjörnesi og ekki er vitað hvenær hægt er að koma rafmagni aftur á.

Reynt var að spennusetja Kópaskerslínu 1 frá Þeistareykjum en búið var að aftengja þann hluta línunnar frá Silfurstjörnu að Kópaskeri þar sem vitað var um bilun á línunni. Spennusetning gekk ekki og því líklegt að um frekari bilun sé að ræða. Þar eru margir staurar brotnir og líkt og víða annars staðar er ísing og selta á línum. 

Rafmagn er enn skammtað á Sauðárkróki en Sauðárkrókslína 1 er biluð.

Hér er hægt að fylgjast með stöðu mála hjá Rarik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert