Best að tækla námið eins og uppvaskið

Sóley Halldórsdóttir útskrifaðist af náttúrufræðibraut Menntaskólans við Hamrahlíð með meðaleinkunnina …
Sóley Halldórsdóttir útskrifaðist af náttúrufræðibraut Menntaskólans við Hamrahlíð með meðaleinkunnina 9,37. Ljósmynd/Aðsend

„Ég held að ef maður hafi raunverulegan áhuga á einhverju þá muni maður alltaf finna tíma fyrir það,“ segir Sóley Halldórsdóttir, sem útskrifaðist sem dúx frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, í samtali við mbl.is.

Sóley útskrifaðist af náttúrufræðibraut MH með 9,37 í meðaleinkunn. Svo sannarlega glæsilegur árangur sem verður að teljast enn glæsilegri þegar tekið er með í reikninginn að hún bæði vann með námi og samdi tónlist í frítíma sínum. „Maður hefur oftast einhvern tíma aflögu fyrir það sem manni langar að gera,“ bætir hún við.

Forvitni, áhugi og löngun til að skilja

Þrátt fyrir að hafa náð þessum árangri segir Sóley að það hafi aldrei verið sérstakt markmið að verða dúx eða hæst í prófum heldur hafi mikill áhugi og forvitni drifið hana áfram.

„Það var meira þannig að mig langaði alltaf að skilja hvað ég væri að gera. Leiðinlegustu áfangarnir sem ég hef farið í voru þeir þar sem mér fannst ég ekkert skilja. Þannig þetta kemur meira af áhuga á efninu eða áhuga á að skilja efnið.“

Uppskriftin að námsárangri Sóleyjar er í raun ekki flókinn að hennar sögn. Hann er einfaldlega sá að klára öll verkefni og mæta í sem flesta tíma. Svo hjálpar að sjálfsögðu að hafa áhuga á því sem maður er að læra hverju sinni.

Lærir efnið hvort sem manni líkar það betur eða verr

„Ég myndi segja að lykillinn væri að klára öll verkefni og grunnurinn að því er að mæta í sem flesta tíma. Af því að ef maður gerir það þá lærir maður efnið hvort sem manni líkar það betur eða verr og ef maður mætir í alla tímanna þá minnkar það sem maður þarf að vinna upp,“ útskýrir hún.

Það er ekki hægt að segja að Sóley sé með mikla frestunaráráttu. „Ég reyni að klára hluti jafnóðum, helst fyrirfram ef ég get. Ég hef aldrei verið mikið í því að fresta hlutum af því ég veit að það verður miklu leiðinlegra að vinna þá daginn eftir,“ segir hún og útskýrir nánar:  

„Þetta er eins og að vaska upp: það er miklu leiðinlegra daginn eftir því þá er allt fast við leirtauið og það er miklu meira vesen. Sömuleiðis er miklu erfiðara að læra daginn eftir þegar maður er búinn að gleyma öllu sem maður lærði í tímanum.“

Áhuginn á líffræði og lífverum alltaf verið til staðar

Ástæðan fyrir því að Sóley valdi náttúrufræðibraut er áhugi á líffræði sem kviknaði snemma hjá henni. Hún var um átta ára aldurinn þegar hún byrjaði að teikna mismunandi tegundir af fuglum í bók hjá sér og skrifa inn upplýsingar um þá. Síðar byrjaði hún að teikna blóm og skrifa nöfnin á þeim í bókina með hjálp frá ömmu sinni.

„Ég hef áhuga á allri líffræði. Ég var í erfðafræði þessa önnina og fannst hún mjög heillandi. Það er áhugavert hvernig þetta virkar allt saman og allir þessir mismunandi þættir sem spila inn í hvernig líf verður til og svona,“ segir hún af mikilli innlifun.

Ætlar fyrst í tónlistarnám og svo háskóla

Eðlilega ætlar hún sér að halda áfram að rækta þennan mikla áhuga og stefnir á háskólanám í líffræði en fyrst ætlar hún að einbeita sér að áhuga sínum á tónlist og tónsmíðum.

„Núna ætla ég að taka mér smá tíma og fara í tónlistarnám. Ég hef alltaf haft áhuga á því og ég veit að ef ég færi beint í líffræði í háskóla núna myndi ég ekki taka mér pásu síðar meir til að auka tónlistarmenntun mína. Þannig það er sniðugra að fara í tónlistina núna og svo í líffræði,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert