Deila Sigmars og Skúla fer fyrir Hæstarétt

Sigmar Vilhjálmsson og lögmaður hans.
Sigmar Vilhjálmsson og lögmaður hans. mbl.is/Arnþór

Hæstiréttur hefur ákveðið að taka fyrir mál Sigmars Vilhjálmssonar og einkahlutafélagsins Sjarms og Garms ehf. gegn Stemmu hf., sem er meðal annars í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar og Sigmars.

Sigmar og Sjarmur og Garmur ehf. gerðu þá kröfu í málinu að ákvörðun hluthafafundar Stemmu hf. í maí 2016 um að selja lóðarréttindi, að Austurvegi 12 og 14 á Hvolsvelli, til Fox ehf. yrði dæmd ógild.

Héraðsdómur féllst á þá kröfu sem og dæmdi ákvörðun hluthafafundar ógilda og Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu að hluta til í október á þessu ári. Landsréttur dæmdi ákvörðunina ógilda hvað varðaði lóðina að Austurvegi 12 en ekki Austurvegi 14.

Báðir málsaðilar óskuðu í kjölfarið eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar.

Sigmar hafi ekki lögvarða hagsmuni í málinu

Áfrýjunarbeiðni Stemmu hf. byggði á því að Sigmar hefði, sem stjórnarmaður í Stemmu, ekki borið ábyrgð á ákvörðunum sem teknar voru af hluthöfum á umræddum hluthafafundi og hefði því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá ákvörðun fundarins ógilta.

Þá hefði ákvörðun hluthafafundarins um sölu lóðarréttinda að Austurvegi 12 ekki verið til þess fallin að afla öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað hluthafa eða félagsins. Sigmar hefur haldið því fram að lóðarréttindin hafi verið seld á undirverði til félags í eigu besta vinar Skúla Gunnars.

Sigmar Vilhjálmsson og Skúli Gunnar Sigfússon í héraðsdómi.
Sigmar Vilhjálmsson og Skúli Gunnar Sigfússon í héraðsdómi. mbl.is/Arnþór

Landsréttur hafi farið út fyrir kröfugerð í málinu

Áfrýjunarbeiðni Sigmars og Sjarms og Garms byggði á því að dómur Landsréttar hefði bersýnilega verið rangur að formi og efni til. Var vísað til þess að fyrir Landsrétti hefði þess verið krafist að ákvörðun hluthafafundarins yrði ógilt í heild sinni en henni ekki breytt.

Þá hefði Landsréttur ranglega lagt til grundvallar að meginreglan um að veita skuli svigrúm til viðskiptalegrar ákvörðunartöku tæki til hluthafafundar en ekki aðeins stjórnar félags.

Að virtum gögnum málsins taldi Hæstiréttur að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um skýringu laga um hlutafélög og tók því báðar beiðnir um áfrýjunarleyfi til greina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert