„Ég upplifi enga sigurtilfinningu“

Frá aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi í fyrra.
Frá aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi í fyrra. mbl.is/Arnþór

Landsréttur kvað í dag upp dóm í máli Stemmu hf. gegn Sigmari Vilhjálmssyni og einkahlutafélaginu Sjarmi og Garmi. 

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu á síðasta ári, var farið að kröfu Sigmars og Sjarms og Garms ehf, og var ákvörðun hluthafafundar Stemmu hf. í maí 2016 um að selja lóðarréttindi að Austurvegi 12 og 14 á Hvolsvelli, til Fox ehf. dæmd ógild. Komst Landsréttur að sömu niðurstöðu í þeim þætti málsins í dag. 

„Það var staðfest að ákvörðun hluthafafundar og Skúla um að selja lóðina til vinar síns, hafi verið ótilhlýðileg. Við komumst að sömu niðurstöðu með það,“ sagði Sigmar í samtali við mbl.is stuttu eftir dómsuppsöguna. 

Sigmar og Sjarmur og Garmur ehf. stefndu Stemmu hf. vorið 2018 vegna deilna þeirra Sigmars og Skúla Gunnars Sigfússonar, oftast kenndur við Subway. Deilan sneri að ferðaþjónustuverkefni á Hvolsvelli, þar sem nú er Lava-setrið. 

„Þetta er mjög skrítin tilfinning. Ég upplifi enga sigurtilfinningu heldur er þetta bara mikill léttir. Um leið er maður auðvitað hryggur yfir því að svona mál þurfi að fara svona langt og vera jafn opinbert og það hefur verið í fjölmiðlum. Maður hálfskammast sín fyrir það,“ segir Sigmar, aðspurður hvort hann sé sáttur með niðurstöðu Landsréttar. 

„Innst inni vona ég bara að menn geti sest niður og samið sín á milli til að klára þetta mál. Frelsað alla undan þessu máli, þetta tengist auðvitað mörgum og leggst á marga,“ segir Sigmar. 

Segir réttlætið hafa sigrað 

Sigmar segir næstu skref vera að fara yfir dóm Landsréttar. Í kjölfarið geti þeir Skúli vonandi ráðið málinu til lykta þeirra á milli. 

„Núna þarf að fara yfir þennan dóm, hann er mjög langur enda er þetta mál frekar flókið. Við þurfum bara að fara yfir það og vonandi verður hægt að setjast niður og leysa úr þeim hagsmunamálum sem eru í þessu, án þess að það þurfi að fara enn eina ferðina í dómsal. Ég vona það að Skúli sé tilbúinn til þess núna, en haldi ekki áfram með málið. Það hefur allavega reynst erfitt að fá hann að borðinu hingað til.“

Sigmar segir málið hafa varað lengi og verið erfitt. 

„Ósættið kemur upp 2014. Síðan þá hefur þetta verið í þessu standi. Þetta hefur verið langt, kostnaðarsamt og tímafrekt. Maður óskar engum þess að þurfa fara þessa leið.“

Sigmar segist þó ekki hafa séð annað í stöðunni á sínum tíma þegar hann stefndi Stemmu hf. 

„Ég er bara þannig innréttaður að ég get ekki sætt mig við það að menn komi svona fram. Ég er kannski svona vitlaust, allavega svona þrjóskur. Ég trúi bara á það að réttlætið sigri alltaf á endanum og það vissulega gerði það í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert