Nefndin fékk „faglega og haldgóða ráðgjöf“

Þingvellir í vetrarbúningi.
Þingvellir í vetrarbúningi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Capacent segir að það hafi verið í verkahring Þingvallanefndar að taka ákvarðanir á öllum stigum í ráðningarferli þjóðgarðsvarðar og er það mat fyrirtækisins að nefndin hafi fengið faglega og haldgóða ráðgjöf.

Þetta kemur fram í svari Capacent við fyrirspurn mbl.is vegna málsins. Þar segir einnig að ávallt sé farið yfir það með viðskiptavinum í tengslum við opinberar ráðningar hvað felst í þjónustu fyrirtækisins áður en ráðgjöf er veitt.

Ríkið hefur komist að samkomulagi um 20 milljóna króna bótagreiðslu til Ólínu Þorvarðardóttur, fyrrverandi þingmanns, en kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að jafnréttislög hefðu verið brotin þegar gengið var fram hjá henni við skipan þjóðagarðsvarðar árið 2018. Capacent annaðist ráðningarferlið.

„Capacent veitir ekki lagalega ráðgjöf í tengslum við ráðningar. Þá er það ávallt á valdsviði opinberra aðila að taka ákvörðun á öllum stigum í ráðningarferli hverju sinni,“ segir í svarinu.

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við Vísi eftir hádegið í dag að hann liti svo á að ríkissjóður hlyti að eiga endurkröfurétt á Capacent vegna málsins, þar sem ráðgjafarfyrirtækið hefði verið ráðið til að „sjá til þess að formskilyrðum þessarar málsmeðferðar yrði fullnægt“.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður nefndarinnar, virkaði eilítið óhress með störf ráðgjafarfyrirtækisins í samtali við mbl.is fyrir hádegi og sagðist ekki vita hvers vegna ekki hefði verið ráðist í skriflegt mat á huglægum þáttum eftir að viðtöl voru tekin við umsækjendurna tvo.

Svar Capacent í heild sinni:

„Í ljósi umræðu um ráðgjöf Capacent við Þingvallanefnd vegna ráðningar þjóðgarðsvarðar vill Capacent taka eftirfarandi fram:

Capacent hefur um áratugaskeið veitt ráðgjöf í tengslum við opinberar ráðningar. Það samstarf, við hina ýmsu fulltrúa hins opinbera, hefur verið afskaplega farsælt. Ávallt er farið yfir það með viðskiptavinum í tengslum við opinberar ráðningar hvað í þjónustu fyrirtækisins felst áður en ráðgjöf er veitt.

Capacent veitir ekki lagalega ráðgjöf í tengslum við ráðningar. Þá er það ávallt á valdsviði opinberra aðila að taka ákvörðun á öllum stigum í ráðningarferli hverju sinni.

Með vísan til framangreinds var það í verkahring Þingvallanefndar að taka ákvarðanir á öllum stigum í ráðningarferli þjóðgarðsvarðar. Það er mat Capacent að Þingvallanefnd hafi fengið faglega og haldgóða ráðgjöf.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert